Ef jöfnuður hér á landi væri enn meiri en nú er væri fólki ekki umbunað fyrir að afla sér menntunar og reynslu eða taka áhættu. Þannig myndu hvatar til að fara í skóla og til nýsköpunar og fjárfestinga minnka. Þetta segir Davíð Þorláksson héraðsdómslögmaður í pistli sem hann skrifar í Viðskiptablaðið í dag.

Þar fjallar hann um yfirstandandi kjaradeilur og þær gríðarlegu launahækkanir sem verkalýðshreyfingin fer nú fram á. Segir hann að því sé stundum haldið fram að ójöfnuður sé of mikill hér á landi og hann fari vaxandi, en bendir á nokkrar staðreyndir í því samhengi.

Jöfnuður hefur farið vaxandi

„Gini stuðullinn á Íslandi var samkvæmt nýjustu tölum OECD 0,25 sem þýðir að við erum með þriðja mesta jöfnuðinn meðal OECD ríkja. Jöfnuður hefur farið vaxandi, en stuðullinn var 0,3 árið 2008. Nær öll rík velferðarríki eru með minni jöfnuð.

Enn nýrri tölur frá Hagstofunni sýna að árin 2013 og 2014 hækkuðu laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks mest, eða um 7,7% árið 2014, á meðan stjórnendur hækkuðu minnst, eða um 5,2%. Þá sýna tölur Ríkisskattstjóra að 18% heimila greiddu engan tekjuskatt árið 2013 á meðan tekjuhæsta prósentið greiðir 35,2% skatt. Það þýðir að 32 þúsund heimili borga engan tekjuskatt. Engan,“ segir Davíð.

Kaupmáttur verði aukinn

Davíð segir að jöfnuður hér á landi sé ekki aðeins meiri en annars staðar og vaxandi heldur sé miðgildi tekna hér hærra en í flestum OECD löndum. Segir hann að ef jöfnuður væri meiri myndu hvatar til að fara í skóla og til nýsköpunar og fjárfestinga minnka.

„Velferð allra myndi minnka. Er það virkilega sú stefna sem við viljum taka? Eða er jöfnuður þegar orðinn nægjanlegur og eigum við að einbeita okkur að því að auka kaupmátt allra,“ segir Davíð að lokum.

Lesa má pistilinn í heild sinni hér.