David Zell hefur verið ráðinn yfirmaður lánastarfsemi og sambankalána í útibúi Glitnis í London og hóf hann störf síðastliðinn mánudag. David verður einnig staðgengill framkvæmdastjóra útibúsins, segir í frétt Glitnis.

David Zell er með víðtæka reynslu af störfum á fjármálamarkaði í London og á meginlandi Evrópu. Hann hefur komið að umfangsmiklum endurfjármögnunarverkefnum, fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja og fjármögnun fyrirtækjakaupa.

Steinunn Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Glitnis í London, segir að ráðning Davids Zell sé liður í uppbyggingu Glitnis í Bretlandi til lengri tíma. ?Ráðningin endurspeglar ásetning Glitnis um öfluga uppbyggingu á lánastarfsemi bankans og hún styrkir alhliða vöru- og þjónustuframboð bankans gagnvart lykilviðskiptavinum, ekki síst í alþjóðlegum matvælaiðnaði.?

Áður en David hóf störf hjá Glitni var hann framkvæmdastjóri hjá WestLB í London þar sem hann var yfir sambankalánum í Vestur-Evrópu og víðar. David þróaði sambankalánastarfsemi WestLB og leiddi stór verkefni fyrir viðskiptavini eins og Deutsche Bahn, Gazprom og TUI/Thompson Travel. Þess má geta að hjá WestLB hafði David yfirumsjón með sambankaláni Actavis en WestLB leiddi fjármögnun fyrirtækisins ásamt Glitni.

Áður en David réðst til WestLB var hann framkvæmdastjóri lánastarfsemi Citigroup í 10 ár ásamt því að stýra sambankalánum í Þýskalandi, Sviss og á Ítalíu og fyrir heilbrigðisgeirann í Evrópu.

Með ráðningu Davids Zell starfa 25 manns fyrir útibú Glitnis í London en þar af hafa þrír starfsmenn aðsetur á Kirkjusandi.