Stjórnendur Debenhams hafa á síðustu vikum átt í óformlegum viðræðum við stjórn bresku herrafatakeðjunnar Moss Bros um yfirtöku á síðarnefnda félaginu, að því er fram kemur í Financial Times og Daily Telegraph. Sem kunnugt er hefur Baugur sett fram óformlegt yfirtökutilboð í Moss Bros, upp á 42 pens á hlut, eða sem nemur um 40 milljónum punda. Nú fer fram áreiðanleikakönnun Baugs á yfirtökunni, en hluthafar úr Moss- og Gee-fjölskyldunum, sem eiga samtals yfir 25% hlut, hafa lýst yfir andstöðu við tilboðið og sagt það vanmeta verðmæti félagsins. Baugur á um 28% hlut í Moss Bros og er einnig einn stærsti hluthafi Debenhams, með 13,5% hlut.

Í samtali við Viðskiptablaðið í lok febrúar sagði Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs, að vænta mætti þess að sex til átta vikur liðu áður en endanleg niðurstaða fengist um hvort félag á vegum Baugs og fleiri fjárfesta legði fram formlegt tilboð í Moss Bros.