Síðustu Debenhams verslanirnar lokuðu í hinsta skipti í gær, laugardag. Saga Debenhams verslananna spannar yfir 240 ár en framvegis verður aðeins hægt að kaupa vörur undir merkjum Debenhams í vefverslun. Þetta kemur fram í frétt BBC .

Tískuverslunin Boohoo keypti í janúar síðastliðnum vörumerki Debenhams fyrir 55 milljónir punda, eða sem samsvarar ríflega 9,6 milljörðum íslenskra króna.

Þegar mest lét voru 150 Debenhams verslanir víða um Bretland, en undanfarin ár hefur hallað undan fæti og sala dregist saman. Mun faraldurinn hafa veitt verslunarkeðjunni smiðshöggið, en í Desember tilkynntu eigendur félagsins hagræðingaraðgerðir þar sem 12 þúsund manns yrði sagt upp störfum.

Eftir að útgöngubanni var aflétt í Bretlandi opnuðu 97 Debenhams verslanir aftur til að tæma lager þeirra og verslanirnar lokað hver á fætur annarri síðast liðnar tvær vikur. Í gær lokuðu síðustu 28 verslanirnar svo dyrum sínum fyrir fullt og allt.

Verslun Debenhams var rekin í Smáralind á Íslandi í yfir 15 ár en verslunin lokaði árið 2017.