„Við erum ekki í slíkum viðræðum,“ segir Gísli Árnason, samskiptafulltrúi deCODE, inntur eftir fréttum um hugsanlega sölu á fyrirtækinu.

DeCODE hefur nú verið sett á athugunarlista hjá Nasdaq vegna þess að markaðsvirði bréfa í fyrirtækinu hafa verið undir 50 milljónum Bandaríkjadala tíu daga í röð, en það er lágmark þess sem fyrirtæki þurfa að uppfylla til þess að vera skráð í Nasdaq-kauphöllinni.

Fyrirtækið hefur nú 30 daga frest til að hífa gengi félagsins upp, að öðrum kosti verður það afskráð. „Það er ekki óalgengt að menn fari í viðræður við Nasdaq eftir frestinn,“ segir Gísli í samtali við Viðskiptablaðið.

Þá segir hann að þó að bréfin hafi verið sett á athugunarlista þýði það ekki endilega afskráningu og hægt sé að leita annarra leiða.

Gísli segir að nú sé félagið á kafi í endurfjármögnunarviðræðum og vonast hann til að fréttir berist vegna þess innan skamms.

Þegar þetta var skrifað var gengi bréfa deCODE einungis 0,28 sent og markaðsvirði félagsins stóð í 17,3 milljónum Bandaríkjadala. Bréfin lækkuðu um rúm 15% um leið og viðskipti hófust með þau á Nasdaq-markaðnum í gær.