DeCODE genetics, móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar, hefur tilkynnt um nýja uppgötvun á tengslum tiltekinna erfðaþátta og líkinda á brjóstakrabbameini, að því er fram kemur í tilkynningu félagsins.

Þeir erfðaþættir sem um ræðir geta skýrt um 11% af öllu brjóstakrabbameini. Fjallað er um uppgötvunina í grein sem birt var á sunnudag í vefútgáfu Nature genetics .

Í tilkynningu deCODE er haft eftir Kára Stefánssyni forstjóra félagsins að á síðust tveimur árum hafi félagið fundið ákveðna erfðaþætti sem búa að baki stórum hluta af arfgengri áhættu á því brjóstakrabbameini sem oftast sé greint.

Nú hafi því langþráða markmiði verið náð að hægt sé, með einföldu genaprófi, að greina stóran hluta kvenna sem eigi mest á hættu að fá sjúkdóminn.