DeCODE, móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar, hefur verið fært niður um lista í Nasdaq-kauphöllinni. Í kauphöllinni eru þrír listar, sá efsti er Global Select Market, annar er Global Market og sá þriðji er Capital Market. DeCODE hefur verið skráð á Global Market listann en hefur nú verið fært niður á Capital Market listann.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá deCODE þar sem segir að félagið hafi verið tekið fyrir hjá nefnd á vegum Nasdaq þann 18. desember sl. þar sem það uppfyllti ekki lengur skilyrði um skráningu. Félagið hefur frest til 29. apríl nk. til að bæta úr þessu.

Á vef Nasdaq kemur fram að reglur um afskráningu þeirra félaga sem ekki uppfylli skilyrði um að verð hlutabréfanna sé a.m.k. 1 dalur á 30 daga tímabili hafi verið afnumdar tímabundið þann 16. október sl. Þann 19. desember hafi þetta tímabil verið framlengt til 19. apríl nk.