Líftæknifyrirtækið deCODE hefur greint frá jákvæðum niðurstöðum með hjartalyfið DG051. Fasa IIa er lokið og kom lyfið jákvætt út úr þeim tilraunum og mun vera á leiðinni yfir í fasa IIb tilraunir. Stjórnendur félagsins munu gera nánari grein fyrir niðurstöðunum á ráðstefnu JP Morgan (JP Morgan 26th Annual Healthcare Conference) sem haldin verður á morgun.

Er gert ráð fyrir að fasa IIb rannsókn hefjist með vorinu og nái til 400 sjúklinga.

Fyrsta fasa tilraunum á hjartalyfinu DG051, sem deCODE hefur unnið lengi við að þróa, lauk síðasta vor og kom þá fram að tilraunirnar hefðu gengið vel. Vonir standa til þess að lyfið geti komið í veg fyrir hjartaáföll í áhættuhópum. Lyfinu er ætlað að blokkera bólguvakan LTB4 sem hefur áhrif á hjartaáföll og flest bendir til þess að það virki vel en rannsóknin í fyrsta fasa náði til 40 heilbrigðra einstaklinga.

"Þessi hluti gekk nákvæmlega upp eins og við væntum, sjúklingarnir tóku vel við lyfinu og engin hliðaráhrif greindust. Lyfið hagaði sér mjög vel í þessari tilraun," sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í Viðskiptablaðinu síðasta vor þegar fyrsta fasa lauk.

DG051 er eins konar "tilbrigði" við hjartalyfið DG031 því að það hemur annan efnahvata í sama lífefnafræðilega ferli. DG051 er hins vegar hannað frá grunni af deCODE öfugt við DG031 sem lengi var talið efni í stórsölulyf (blockbuster). Þar sem deCODE keypti lyfjamörk að DG031 slapp félagið við fasa 1 tilraunir á því en þar er einkum mælt fyrir eitrunaráhrifum.