deCODE genetics, móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar á í viðræðum um kaup á líftæknifyrirtækinu Urði, Verðandi, Skuld (UVS), samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Þrátt fyrir að ekki sé víst að samningar náist telja heimildarmenn blaðsins að svo gæti farið að samningar næðust fyrir áramót. Kaupverð félagsins liggur ekki fyrir líklegt er að greitt verði fyrir fyrirtækið með lausafjármunum. Talsmaður deCODE, sem blaðið náði tali af, kvaðst hvorki geta játað því né neitað hvort yfirtökuviðræður stæðu yfir.

Nýverið lýsti deCODE genetics því yfir að það kunni að gefa út hlutabréf, forgangshlutabréf, skuldabréf og önnur verðbréf fyrir allt að 100 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur rúmum 6,3 milljörðum íslenskra króna. Fyrirtækið hefur sótt um svokallaða skúffuskráningu (e. Shelf registration) hjá bandaríska fjármálaeftirlitinu í þessum tilgangi og hyggst nota féð, ef af verður, til almenns rekstrar.

Urður, Verðandi, Skuld var stofnað árið 1998 og sérhæfir sig í krabbameinsrannsóknum. Hjá fyrirtækinu starfa um 20 manns sem sagt var upp um síðastliðin mánaðarmót. Rannsóknir UVS beinast að líffræðilegum orsökum krabbameins í þeim tilgangi að greina og meðhöndla krabbamein en rekstur félagsins hefur gengið erfiðlega.