DeCode Genetics, móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar, hefur birt niðurstöður tveggja rannsókna sinna um tengsl genatilbrigða sem ráða húðlit manna og líkum á að fá krabbamein. Í fyrri rannsókninni var genamengi tæplega 8.500 manns á Íslandi og í Hollandi rannsakað og beindist rannsóknin að genatilbrigðum sem valda því að menn eiga auðvelt með að fá freknur og sólbrenna. Í seinni rannsókninni reyndu vísindamenn DeCode að komast að því hvort tvö genatilbrigði sem ráða húðlit, og nefnast ASIP- og TYR-tilbrigði, gætu líka aukið líkur á tveimur tegundum húðkrabbameina. Ljós húð, blá eða græn augu, freknur, rautt hár og útfjólublátt ljós eru allt saman þekktir þættir sem auka líkur á húðkrabbameini og því var þetta rannsakað.

Í rannsókninni voru rannsakaðir um 45.000 manns en í hópnum voru krabbameinssjúklingar sem þjáðust af CM- eða BCC-krabbameini og heilbrigt fólk. CM-krabbamein er hættulegasta form húðkrabbameins en BCC-krabbamein er algengara en ekki eins hættulegt þar sem það dreifir sér ekki oft. Í ljós kom að ASIP-tilbrigðið, sem 15% fólks hefur í sér, jók líkur á CM-krabbameini um 45% og líkur á BCC-krabbameini um 33%. TYR-tilbrigðið, sem 35% fólks hafa í sér, eykur líkurnar á CM-krabbameini um 20% og á BCC-krabbameini um 14%. Önnur genatilbrigði sem ráða því að fólk hafi ljósa húð virtust ekki tengjast líkum á krabbameini.

„Það var almenn vitneskja að fólk með ljósari húðlit er viðkæmara fyrir sól og að mikil sól eða síendurtekinn sólbruni getur aukið líkur á húðkrabbameini. Það sem við sýndum fram á nú er hins vegar að það eru fjölbreytt genatilbrigði sem valda sama húðlit, og við höfum sýnt fram á að sum þeirra hafa í för með sér meiri hættu á húðkrabbameini en önnur. Þessar upplýsingar eru mikilvægar til að skilja líffræði húðkrabbameina,“ sagði Kári Stefánsson.