Vísindamenn DeCode Genetics, ásamt öðrum, hafa fundið tensl á milli breytileika í erfðavísi í mönnum og því hvernig líkaminn bregst við nikótíni, hversu miklar líkur eru á lungnakrabba og útæðasjúkdómum. Frá þessu er greint á v ef Bloomberg fréttaveitunnar. Rannsóknirnar þrjár, þ.e. rannsókn DeCode, rannsókn krabbameinsmiðstöðvar háskólans í Texas og rannsókn Alþjóðakrabbameinsrannsókna-stofnunarinnar í Lyon, skoðuðu genamengi 37.000 Evrópubúa. Vísindamennirnir leituðu að mismun á genum þátttakenda með og án lungnakrabba. Mesti munurinn sást á genum sem framleiða viðtökuprótín (e. receptor protein) sem láta frumur bregðast við nikótíni og acetylcholine, taugaboðefni. Áður hafa rannsóknir bent til tengsla milli þessara gena og fíknar og lungnakrabba.

Rannsókn DeCode leiddi í ljós að fólk með þessi tilteknu gen var líklegra til að reykja, til að reykja lengur og meira, auk þess sem breytan var tengd útæðasjúkdómum.