deCODE, Íslensk erfðagreining, hefur óskað eftir því að fá fund með nefnd á vegum Nasdaq, sem ákvarðar hvort félög séu hæf til skráningar á þeim markaði. Fyrirtækið hyggst greina frá því hvaða aðgerðir verði ráðist í til að uppfylla skilyrði reglu Nasdaq sem kveður á um að skráð fyrirtæki þurfi að vera að minnsta kosti 50 milljóna dollara virði samkvæmt skráðu gengi. Þann 31.október síðastliðinn var skráð markaðsvirði deCODE 26,6 milljónir dollara, og gengi bréfa félagsins var 43 sent.

Samkvæmt bréfi sem Nasdaq sendi deCODE þann 6.október, verður félagið skráð af aðalmarkaðnum Nasdaq Global Market þann 11.nóvember næstkomandi. Nú, í ljósi umsóknar deCODE um áheyrn hjá áðurnefndri nefnd, verður félagið ennþá skráð í allt að því 180 daga frá fyrstu tilkynningu (sem barst 6.okt). Áheyrnin mun síðan fara fram innan 45 daga frá því að bréf deCODE til Nasdaq er dagsett.

deCODE hefur einnig möguleika á því að sækja um skráningu á hliðarmarkaðinn Nasdaq Capital Market, en skilyrðin þar kveða á um markaðsvirði að minnsta kosti 35 milljónum dollara.