American Airlines náði í gær samkomulagi við Boeing um bætur vegna kyrrsetninga 737 MAX flugvélanna vegna tjóns sem flugfélagið varð fyrir á síðasta ári.

Ekki var greint frá fjárhæð bótanna en þó kom fram að bótagreiðslunum yrði dreift yfir nokkur ár. Þá á að deila 30 milljónum dollara með starfsfólki flugfélagsins sem hluti af hagnaðarskiptarfyrirkomulagi flugfélagsins.

American Airlines var með 24 MAX flugvélar í flota sínum þegar flugvélarnar voru kyrrsettar í mars og átti að vera með 40 MAX flugvélar um áramótin. Flugfélagið hefur sagst hafa orðið af tekjum upp á 540 milljónir dollara vegna kyrrsetningarinnar á síðasta ári.

Boeing íhugar að fara út á fjármálamarkaði að sækja sér aukið lánsfé til að standa undir kostnaði vegna MAX 737 flugvélanna. Flugvélaframleiðandinn hyggst stöðva framleiðslu MAX vélanna í þessum mánuði, þar til betur skýrist hve lengi kyrrsetningin varir.

Boeing hefur eyrnamerkt 6,1 milljarð dollara til greiðslu bóta vegna málsins. Southwest Airlines, Aeromexico og Icelandair eru meðal annarra flugfélaga sem hafa náð samkomulagi við Boeing um bætur að hluta vegna kyrrsettninga 737 MAX flugvélanna.