Enginn ágreiningur er milli bústjóra Astraeus Limited og fyrrum stjórnenda félagsins vegna yfirlýsingar um stöðu félagsins við fall þess, að sögn Skarphéðins Bergs Steinarssonar. Stærstu kröfuhafar í Astraeus, sem var í eigu Fengs, félags Pálma Haraldssonar, eru félög tengd Pálma, eins og Iceland Express og Fengur. „Þetta eru tengd félög í sama eignarhaldi og ég sagði því við umsjónarmennina að ég teldi það ekki viðeigandi að undirrita pappíra um Astraeus við þær kringumstæður,“ segir Skarphéðinn. Hann stýrði Astraeus við fall félagsins í október síðastliðnum og er nú forstjóri Iceland Express.

Hann segir bústjóra sýna því skilning og því hafi fyrrum fjármálastjóri verið fenginn til þess að taka saman yfirlýsinguna um stöðu félagsins (e. Statement of Company’s Affairs), sem birtir stöðuna þann dag sem óskað var eftir greiðslustöðvun.

Viðskiptablaðið greindi í síðustu viku frá skýrslu þriggja breskra bústjóra Astraeus sem send var kröfuhöfum félagsins um miðjan síðasta mánuð. Um er að ræða kröfur í búið eins og þær birtast samkvæmt efnahagsreikningi í október, en ekki lýstar kröfur í félagið.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.