Aðilar máls í Vatnsendamálinu , sem ítarlega er fjallað um í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, deila um hvort Magnúsi Hjaltested, og síðar Þorsteini syni hans, hafi verið heimilt að fara með landið sem sína eign.

Sóknaraðilar telja að réttur þeirra nái aðeins til „umráða og afnota“ og teljist ekki eignarréttur. Þeim hafi því aldrei verið heimilt að selja eignina eða hluta hennar. Rökstuðning þeirra fullyrðinga er að finna í erfðaskrá frá árinu 1938 og gilti þegar Sigurður Hjaltested, afi Þorsteins, erfði allar eignir Magnúsar Einarssonar Hjaltested.

Í erfðaskránni voru tilgreindar ýmsar takmarkanir og skilyrði, meðal annars þau að Sigurður mátti ekki selja eignina og skyldi búa á henni. Að Sigurði látnum skyldi jörðin ganga að erfðum til elsta sonar hans og svo til niðja hans í beinan legg. Í erfðaskránni segir einnig að skyldi einhver erfingjanna hætta búskap að Vatnsenda missti hann rétt sinn samkvæmt erfðaskránni og að sérhver erfingi sé skyldugur til að halda öll þau skilyrði sem Sigurður setti. Þetta kemur fram í úrskurði héraðsdóms frá árinu 2009 og einnig í greinargerðum lögfræðinga stefnanda í málinu sem rakið er fyrir dómstólum í dag.

Ítarlega er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.