*

miðvikudagur, 24. júlí 2019
Innlent 13. desember 2013 13:24

Deila um kröfur í þrotabú félags Jakobs

Slitastjórnir Glitnis og Landsbankans vilja fá greitt úr þrotabúi útgerðarmanns frá Bolungarvík.

Ritstjórn

Slitastjórnir Glitnis og gamla Landsbankans deila um upphæð krafna í þrotabú félagsins S44 ehf. Félagið hét áður JV ehf og hélt utan um útgerð feðganna Jakobs Valgeirs Flosasonar og Flosa Valgeirs Jakobssonar. Félagið hætti rekstri 31. janúar árið 2009 og seldi bæði skip og aflaheimildir. Fyrirtækið var svo úrskurðað gjaldþrota í september í fyrra. 

Útgerðarmaðurinn Jakob Valgeir tengist nokkrum málum í bankahruninu. Hann var m.a. stjórnarmaður í félaginu Stím, sem Glitnir lánaði 19,6 milljarða króna til kaupa á hlutabréfum bankans. Lánveitingin er til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara en slitastjórn Glitnis hefur höfðað skaðabótamál á hendur fimm mans vegna lánveitinganna. Hinir stefndu eru fyrrverandi starfsmenn Glitnis. Það eru þau Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, Guðmundur Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, og Guðný Sigurðardóttir, sem var viðskiptastjóri. Þá er Jakobi jafnframt stefnt í málinu ásamt Þórleifi Stefáni Björnssyni, sem var forstöðumaður fjárstýringar Saga Capital og prókúruhafi Stíms.

Fékk milljarða í svissneskum frönkum

JV ehf tapaði 500 milljónum króna árið 2010 samkvæmt síðasta birta ársreikningi en hagnaðist um rúma 1,4 milljarða árið 2009. Eignir í lok árs 2010 námu rétt rúmum 800 milljónum króna sem samanstóðu að mestu af eignarhlutum í öðrum félögum upp á tæpar 700 milljónir króna. Stærsti eignahluturinn er 5,6% hlutur í einkahlutafélaginu Jakob Valgeir ehf í Bolungarvík. 

Á sama tíma námu skuldir JV ehf rúmum 8,3 milljörðum króna. Þar af námu skuldir við lánastofnanir 7,6 milljörðum króna. Þær voru nær eingöngu í svissneskum frönkum.  Eigið fé félagsins var því neikvætt um 7,5 milljarða króna. 

Eldjárn Árnason, skiptastjóri þrotabús S44 ehf vill ekki tjá sig um það í samtali við VB.is um hversu háar kröfur slitastjórnirnar karpi við búið. Hann bendir þó á að ekki sé mikið til skiptanna í þrotabúinu. 

Fyrirtaka var í öðru máli slitastjórnanna í héraðsdómi Reykjavíkur í morgun en þingfesting í máli Glitnis.