*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Innlent 2. júní 2020 14:04

Deila um Labrador endaði í Landsrétti

Hundaræktandi var fyrir helgi dæmd til að greiða öðrum slíkum tæplega 1,3 milljón króna. Málskostnaður var dýrari en hundurinn.

Jóhann Óli Eiðsson
Til að tryggja að myndefni fréttarinnar væri örugglega ekki umræddur hundur fylgir hér mynd af Vilhjálmi bretaprins og Kate Middleton með pakistanska labradora sem eru sérþjálfaðir til sprengjuleitar.
epa

Hundaræktandi var í Landsrétti fyrir helgi dæmdur til að greiða öðrum slíkum tæplega 1,3 milljón króna. Annars vegar þar sem hún hafði ekki staðið við sinn hluta samkomulags er Labrador hundur var fluttur hingað til lands frá Bretlandi og hins vegar vegna endurgreiðslu láns sem hún hafði fengið.

Konurnar tvær sem þráttuðu í málinu kynntust í gegnum hundarækt en fljótlega eftir kynnin hóf sú sem lagði út fyrir hundinum að lána hinni fjármuni fyrir ýmsum nauðþurftum. Á tæplega tveggja ára tímabili, á árunum 2015-17, hafi hún lánað henni 577 þúsund krónur.

Í byrjun árs fengu þær veður af Labrador hundi í Manchester borg sem gæti verið falur. Stefnda í málinu sagði að hún hefði ekkert handbært fé til kaupanna. Varð það samkomulag milli þeirra að sú fjársterkari myndi leggja út fyrir hundinum en hin myndi endurgreiða helming í hundinum þegar hann kæmi til landsins. Hugmynd þeirra var að nýta hundinn til undaneldis en rakkatollur vegna hundsins var áætlaður 250 þúsund krónur á hverja tík.

Kostnaður við flutning hundsins hingað til lands var nokkur. Kaupverð var tæplega milljón króna, tæpar 153 þúsund krónur féllu til vegna flutnings hingað til lands og 300 þúsund krónur vegna einangrunarvistunar hingað til lands. Hins vegar kom ekki til þess að kostnaðurinn við kaupin á hundinum yrði greiddur og kastaðist því í kekki milli eigenda rakkans.

Gagnstefndi og vildi bætur vegna missis rakkatolls

Í mars 2018 sendi lögmaður þeirrar sem lagði út fyrir hundinum bréf til hinnar þar sem lögð var til riftun á fyrrgreindu samkomulagi vegna vanefnda á því. Ýmsar ástæður voru týndar til vegna þess. Meðal annars hefði konan skráð hundinn á sitt nafn þrátt fyrir að hafa ekki greitt krónu í honum og þá hefði hún ekki í hyggju að standa í sameiningu að vali á tíkum sem hentuðu til pörunar við voffann. Þá var á það bent að tvær paranir skráðs eiganda hefðu verið kærðar til siðanefndar Hundaræktunarfélags Íslands. Var lagt til annars vegar að skráður eigandi léti eftir sinn hlut í hundinum eða þá að hún myndi greiða kaupverðið að fullu og eignast þar með hundinn.

Sátt náðist ekki í málinu og var því á endanum stefnt fyrir dóm. Sú sem lagði út fyrir hundinum krafðist þess að staðfest yrði riftun á sameiginlegum kaupum á hundinum og að staðfest yrði að hún yrði einn eigandi hans. Þá var krafist endurgreiðslu á lánum til hinnar. Til vara var þess krafist að samningurinn yrði dæmdur ógildur og að hún yrði ein eigandi hundsins. Yrði ekki fallist á það hljóðaði þrautavarakrafan upp á það að hinni yrði gert með dómi að greiða fyrir sinn hlut í hundinum.

Stefnda í málinu krafðist sýknu en til vara að kröfurnar yrðu lækkaðar verulega. Þá hafði hún uppi gagnkröfu um að sú sem lagði út fyrir hundinum myndi greiða henni tæplega 1,4 milljónir króna. Byggði sú krafa á því að hin fjársterkari hefði haft hundinn í sinni vörslu frá því í september 2017. Hafi hún haft hundinn í felum og því hafi ekki verið hægt að para hann við tíkur síðan þá. Taldi konan að hún hefði orðið af talsverðum tekjum vegna þessa þar sem ekki hafi verið hægt að rukka 250 þúsund krónur fyrir hvern skammt af sæði úr hundinum. Ætti hún rétt að skaðabótum vegna þessa.

Málskostnaður dýrari en hundurinn

Í dómi Landsréttar var aðal- og varakröfu þeirrar sem lagði út fyrir hundinum vísað frá héraðsdómi. Ástæðan fyrir því var sú að í kröfunni sjálfri mátti finna málsástæðu fyrir henni. Ekki þótti unnt að taka kröfurnar upp sem dómsorð og var þeim því vísað frá þar sem þær uppfylltu ekki skýrleikakröfur einkamálalaganna.

Eftir stóðu því fjárkröfur upp á rúmlega 1,3 milljónir króna vegna útlagðs kostnaðar. Var þess getið að um munnlegt samkomulag hefði verið að ræða og að ekki væru til nein gögn eða vitnisburður sem styðjast mætti við við sönnunarmat í málinu.

Stefnda í málinu hafði byggt á því að henni bæri ekki að greiða neitt þar sem samið hafi verið um að hún myndi greiða sinn hluta í hundinum með því að annast hann. Það taldi Landsréttur ekki sannað gegn eindreginni neitun þeirrar sem lagði úr fyrir rakkanum. Var því talið að konunni bæri að greiða helming í þeim kostnaði sem hlaust af kaupum og flutningi hundsins hingað til lands, alls rúmlega 716 þúsund krónur. Þá var einnig fallist á að hún þyrfti að greiða ýmsan kostnað sem hlaust af uppihaldi hans og endurgreiðslu lánsins.

Hvað kröfu um skaðabætur í gagnsök varðaði sagði Landsréttur að stærstur hluti hennar byggði á staðhæfingu konunnar, það er þeirrar sem enn átti eftir að greiða fyrir hlutinn í hundinum, að ýmsir hundaræktendur, þar af þrír ónafngreindir, hefðu haft áhuga á að koma tíkum sínum undir hundinn og greiða fyrir það uppsett gjald. Sú sem lagði út fyrir hundinum hafði hins vegar ekki hugmynd um slíkt fyrr en dómsmál var höfðað. Var því sýknað af kröfum í gagnsök.

Auk þess að þurfa að greiða 1,3 milljónir króna, auk vaxta og dráttarvaxta frá apríl 2018, þarf konan að greiða alls 1,5 milljón króna í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.