Hvað ber rekstraraðila hótels að gera þegar ekki tekst að semja um breytingar á leigusamningi, lítið er um erlenda ferðamenn og innflæði tekna er svo til ekki neitt? Það er meðal þess sem deilt var um í Héraðsdómi Reykjaness síðastliðinn þriðjudag þegar aðalmeðferð fór fram í þrætu Fosshótel Reykjavík ehf. og Íþöku fasteigna ehf.

Í málinu reynir meðal annars á það hvort heimsfaraldur, á borð við þann sem hamlað hefur daglegu lífi hérlendis í tæpt ár og lengur ytra, teljist force majeure, það er óviðráðanlegar ytri aðstæður sem myndu leiða til þess að hefðbundin vanefnd á samningi telst ekki slík. Líkt og fjallað var um í Viðskiptablaðinu í október síðastliðnum hefur öðru slíku máli, þó smærra í sniðum, verið stefnt inn til Héraðsdóms Reykjavíkur en eftir því sem blaðið kemst næst er þetta fyrsta málið sem nær í aðalmeðferð. Í ljósi mikilvægis sakarefnisins er dómur í því fjölskipaður í héraði og samanstendur af þremur embættisdómurum.

Líkt og oft vill verða í málum sem varða samninga þá var það hökt á efndum, en ekki réttar efndir hans, sem varð tilefni til dómsmáls. Árið 2015 opnaði Fosshótel í Reykjavík, þar er á ferð stærsta hótel landsins, í Þórunnartúni 1 við Höfðatorg. Eigandi hússins er fyrrgreint félag, Íþaka fasteignir ehf., sem aftur er í endanlegri eigu Péturs Guðmundssonar, oft nefndur í sömu andrá og Eykt. Leigusamningur var gerður til tuttugu ára um húsnæðið en samkvæmt honum má aðeins starfrækja hótel í hinu leigða.

Sem kunnugt er náði kórónuveiran ströndum Íslands á síðasta degi febrúar í fyrra en síðan þá hefur ferðaþjónustan verið í mýflugumynd. Frá 1. apríl síðastliðnum hefur umþrættu hóteli verið lokað og Fosshótel ekki greitt leigu frá þeim degi. Eftir messuföll fór Íþaka fram á það við Íslandsbanka að fá greitt annars vegar úr bankaábyrgð og hins vegar af reikningi hótelrekandans sem handveðsettur var til að tryggja efndir. Áður en til útgreiðslu kom fór Fosshótel fram á lögbann á hana sem sýslumaður féllst á.

Málið nú var upphaflega höfðað af Fosshótel til staðfestingar á fyrrgreindu lögbanni en þar er Íslandsbanka stefnt til varnar auk Íþöku. Enn fremur er gerð krafa um að leigusamningi aðila verði vikið frá að hluta síðustu níu mánuði síðasta árs og kveðið á um með dómi að félaginu hafi ekki verið skylt að greiða leigu á tímabilinu. Enn fremur er þess krafist að fyrstu þrjá mánuði þessa árs beri félaginu aðeins að greiða fimmtung leigunnar. Íþaka hefur uppi gagnkröfu og krefst að Fosshótel verði dæmt til að greiða vangoldna leigu, frá apríl 2020 til september sama ár.

Reyndu að semja

Skýrslur fyrir dómi gáfu Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, móðurfélags Fosshótels Reykjavík, með stöðu fyrirsvarsmanns og Kolbrún Jónsdóttir, fjármálastjóri samstæðunnar, sem vitni. Í framburði Davíðs Torfa kom fram að þau hefðu merkt áhrif faraldursins nokkru áður en hann náði hingað til lands, sér í lagi eftir að gripið var til ferðabanna í Asíu. Þá hefðu afbókanir hrannast inn. Janúar og febrúar hafi verið eilítið yfir pari miðað við sama tíma 2019 og spiluðu fall Wow og kyrrsetning 737Max þar rullu.

„Miðjan mars í fyrra lokum við nánast öllu nema Grand hótel og Fosshótel Reykjavík. Við vissum ekkert, óvissan var algjör. […] 1. apríl er Fosshótel lokað, það voru engar bókanir og engir gestir að koma,“ sagði Davíð Torfi og bætti við aðspurður að ákveðið hefði verið að halda Grand opnu þar sem bókunarstaðan hafi verið betri, það hefði meiri sögu, væri þekktara innanlands og með fleiri ráðstefnusali. Félagið hafi brugðist við með því að segja upp starfsfólki og nýta öll þau úrræði sem stjórnvöld hafa boðið upp á í von um að halda félaginu á floti. Þá hafi verið samið við viðskiptabanka um að lengja í lánalínum. Ekki hafi hins vegar gengið að semja við leigusala.

„Það hafa allir verið af vilja gerðir í grunninn til að ná saman. Við höfum átt samstarf og ekki hægt að segja annað en að það hafi verið gott. En við náðum ekki saman núna,“ sagði Davíð Torfi. Lögmaður Fosshótela, Eiríkur S. Svavarsson, bar undir hann samkomulag milli Center Hotels og Rita og bóka ehf., það félag er systurfélag Íþöku og leigusali Center að Laugavegi 95-99, um 80% afslátt á leigu til eins árs. „Okkur var boðið ekkert í líkingu við þetta,“ sagði Davíð þá.

Magnús Pálmi Skúlason, lögmaður Íþöku, tók næst til við að spyrja Davíð Torfa og vildi fá að vita hvenær félagið hefði merkt áhrif af faraldrinum. Framkvæmdastjórinn sagði að strax í mars hefðu tekjur verið undir helmingi samanborið við árið á undan. Þann 19. mars sendi félagið erindi á leigusala og spurði hvort ekki væri hægt að finna lausn á mánaðarleigunni, tæplega 50 milljónum króna. Magnús spurði einnig hvort félagið hefði greitt eitthvað undanfarið og benti Davíð á fjármálastjóra hvað það varðaði.

Í máli Kolbrúnar kom fram að félagið hefði greitt rafmagn, kostnað tengdan lóðinni og bílastæðum og eitt og annað en reynt að fá frest eins og unnt var. Magnús benti þá á að samkvæmt ársreikningi rekstrarársins 2019 hefði handbært fé verið tæplega 761 milljón króna í ársbyrjun 2020 og spurði hvað það hefði verið í apríl.

„Ég get ímyndað mér að það hafi verið um 450 milljónir þá. Við borguðum tuttugu prósent af leigunni í apríl. Við hefðum borgað ef þetta hefði bara verið apríl sem var undir en við vorum að horfa til lengri tíma,“ sagði Kolbrún.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .