Eigendur Farfugla í Reykjavík, sem reka Loft Hostel í Bankastræti, segjast eiga einkaleyfi á vörumerkinu Loft innan veitingageirans og vilja að tveir aðrir staðir breyti nöfnum sínum, að því er kemur fram í frétt Fréttablaðsins.

„Það liggur fyrir að við erum með einkaleyfi á vörumerkinu Loft og það stendur. Við erum ekki búin að ákveða hversu hart við göngum fram til að sækja rétt okkar en við viljum eðli málsins samkvæmt halda nafninu fyrir okkur,“ segir Sigríður Ólafsdóttir, rekstrarstjóri Farfugla í Reykjavík sem eiga Loft Hostel í Bankastræti.

Farfuglaheimilið opnaði fyrir skömmu og hefur að sögn Sigríðar einkarétt á nafninu „Loft" innan veitingageirans. Í miðborg Reykjavíkur eru tveir aðrir staðir með „Loft" í nafni sínu, það eru barinn Loftið við Austurstræti og menningarstofan Harbour Loft í Hafnarstræti, sem er í eigu Valgeirs Guðjónssonar tónlistarmanns og eiginkonu hans, Ástu Kristrúnar Ragnarsdóttur.

Þau vildu ekki tjá sig um málið að öðru leyti en að þeim þætti krafa farfuglaheimilisins fáránleg og ekki stæði til að breyta nafni staðarins.