Ágreiningur er í hluthafahópi BVS ehf., félag fyrrverandi eigenda Borgunar um hluti forgangshlutabréf í Visa Inc., um sölu hlutabréfanna. Verið er að ganga frá sölu á bréfunum fyrir um 1,2 milljarða króna að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag .

Íslandsbanki á meirihluta í félaginu en nokkrir minni hluthafar hafa sett sig á móti sölunni og telja að verið sé að selja eignina á undirverði. Þar á, meðal er Haukur Oddsson fyrrverandi forstjóri Borgunar. Þá eru þeir ósáttir við að bankinn vilji ekki upplýsa um hver kaupandinn sé aðrar en þær að hann sé ótengdur núverandi hluthöfum BVS.

Óskar Veturliði Sigurðsson, sem sat í stjórn Borgunar 2015 til 2020, segist í samtali við Fréttablaðið að hann sé ósáttur við skort á upplýsingum um söluferlið. „Ég skil ekki af hverju Íslandsbanki, sem er í eigu almennings, ætlar að gefa huldumanni um eins milljarðs króna afslátt af mjög góðri eign og ætli auk þess að þvinga alla aðra hluthafa til að selja á sama gengi,“ segir Óskar í Fréttablaðinu í dag.

Íslandsbanka segir hins vegar að boðið í bréf BVS sé ívið hærra en mat á þeim um síðustu áramót. Boðað hefur verið til nýs hluthafafundar eftir páska til að fjalla um málið að nýju.

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í síðustu viku þá var hluthöfum BVS nýlega greiddar 1,9 milljarðar króna með lækkun hlutafjár BVS vegna greiðslu tengdum forgangsbréfunum í VISA. Þá sagði í svari bankans við fyrirspurn Viðskiptablaðsins að ekki lægi endanlega fyrir hvernig sölu bréfanna yrði háttað. Um væri að ræða flókinn eignarflokk þar sem einungis væru fáir sérhæfðir kaupendur til staðar.