Arion banki hefur farið fram á að fimm milljón króna tryggingarbréf félagsins Tomahawk Development á Íslandi hf. til Arion banka verði ógilt. Tomahawk Development er að mestu í eigu Magnúsar Garðarssonar, stofnanda United Silicon, og var heimili Magnúsar við Huldubraut 28 í Kópavogi lagt fram til tryggingar bréfinu, á fyrsta veðrétti.

United Silicon stendur nú í öðru dómsmáli þar sem farið er fram á að staðfest verði kyrrsetning á sömu fasteign vegna meints hálfs milljarðs króna fjárdráttar Magnúsar.

Í stefnu sem Karl Óttar Pétursson, lögmaður Arion banka, hefur fengið birta i Lögbirtingablaðinu kemur fram að frumrit tryggingarbréfsins, sem gefið var út þann 31. október 2016, hafi týnst og ekki fundist þrátt fyrir ítarlega leit.

Því sé ekki mögulegt að neyta þeirra réttinda sem bréfið ber með sér. Arion banki telur því að nauðsynlegt sé að fá bréfið ógilt með dómi svo hægt sé að nýta þau réttindi er bréfinu fylgja.

Í Lögbirtingablaðinu er auglýst eftir þeim sem kunni að vita hvar tryggingarbréfið sé niðurkomið eða telji sig eiga rétt til bréfsins. „Að öðrum kosti má búast við því að útivistardómur gangi í málinu og kröfur stefnanda um ógildingu verði teknar til greina,“ segir í stefnunni.