Deila Fosshótels Reykjavík við leigusala sinn, Íþöku fasteignir, mun hoppa yfir eitt dómstig og fara beint til Hæstaréttar. Að mati réttarins kann dómur í málinu að hafa þýðingu fyrir fjölda samninga þar sem forsendur hafa breyst vegna heimsfaraldursins og brýnt að fá niðurstöðu með skjótum hætti. Þetta er í annað sinn sem rétturinn fellst á að mál geti hoppað yfir dómstig.

Fjallað var um deilu aðila með ítarlegum hætti þegar aðalmeðferð fór fram í héraði í febrúar. Eftir að ferðamannalindirnar þornuðu upp síðasta vor hefur Fosshótel Reykjavík ekki greitt leigu til leigusala síns. Í málinu var deilt um það hvort leigusalanum hefði verið heimilt að ganga að bankaábyrgð, sem sett var til tryggingar leigugreiðslum, og kröfu hótelsins um að ákvæði leigusamnings, um leigufjárhæð, yrði vikið til hliðar tímabundið sökum ástandsins í samfélaginu. Var meðal annars deilt um hvort faraldurinn teldist force majeure eður ei.

Fjölskipaður Héraðsdómur Reykjaness komst í mars að þeirri niðurstöðu að ósanngjarnt væri af hálfu leigusalans að krefjast fullrar leigu á meðan ferðamannaþurrðin stæði yfir. Að sama skapi væri ósanngjarnt að leigusalinn tæki allt höggið á sig. Hluta samningsins var því vikið til hliðar á þann veg að leigufjárhæð var lækkuð um helming frá 1. apríl 2020 til 31. mars 2021. Lögbanni á útgreiðslu bankaábyrgðar var hafnað.

Íþaka óskaði þess að fá að áfrýja dóminum beint til Hæstaréttar. Afar fátítt er að slíkt sé heimilað en það var fyrst gert í tveimur málum sem vörðuðu uppgreiðslugjald Íbúðalánasjóðs. Málflutningur í þeim málum fór fram fyrir fullmönnuðum Hæstarétti, það er sjö dómurum, í byrjun þessa mánaðar. Var það í fyrsta skipti sem fallist var á slíka beiðni.

Í beiðni Íþöku sagði að afar brýnt væri að fá endanlega niðurstöðu í málið með dómi Hæstaréttar. Vanefndir á leigusamningi heimiluðu vanalega beitingu vanefndarúrræði. Meðan málið væri til meðferðar fyrir dómstólum væri erfitt fyrir aðila málsins að átta sig á stöðu sinni þannig að unnt væri að framkvæma efni samningsins með réttum hætti. Fosshótel töldu á móti ekki þörf á að málið færi beint til Hæstaréttar heldur gæti mallað áfram í Landsrétti í smá tíma.

„Þá hafi [Fosshótel] verið veitt greiðsluskjól […], sem hafi verið sett í því skyni að gera fyrirtækjum kleift að bregðast við tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldursins. Gera verði ráð fyrir að stærsta einstaka skuld [hótelsins] sé við [leigusala]. Afar brýnt sé því að fá leyst úr um hver sé skuld hans við leyfisbeiðanda. Leyfisbeiðandi telur að með lögum [um greiðsluskjól] hafi verið brugðist við því ástandi sem hafi skapast og að ekki hafi verið ætlun löggjafans að greiðsluvandi fyrirtækja yrði leystur með því að dómstólar leystu þau undan greiðsluskuldbindingum á grundvelli [heimilda í samningalögum]. Fjölmargir aðilar í ferðaþjónustu og víðar séu í sömu sporum og ljóst að mörg mál bíði endanlegrar niðurstöðu málsins,“ sagði í leyfisbeiðninni.

Hæstiréttur féllst sem fyrr segir á beiðnina. Ekki væri séð að þörf væri á að leiða fram vitni við áfrýjun og augljóslega væri brýnt að fá botn í málið. Fallist var því á beiðnina um að hoppa yfir Landsrétt.