*

sunnudagur, 7. mars 2021
Innlent 19. janúar 2021 08:02

Deildi við tollinn um afmælisgjöf

Geta matvörur frá ættjörðinni talist tollfrjáls tækifærisgjöf? Það taldi tollgæslustjóri ómögulegt en þurfti að lúta í gras.

Jóhann Óli Eiðsson
Meðal innihalds gjafarinnar voru ostar frá meginlandinu.
epa

Kona af spænskum uppruna hafði betur gegn tollgæslustjóra fyrir yfirskattanefnd þegar kom að því að ákveða hvort afmælisgjöf til hennar skyldi bera aðflutningsgjöld eður ei. Tollstjóri taldi sendinguna innihalda almenna neysluvöru og því gæti ekki verið gjöf á ferð.

Atvik málsins eru þau að síðasta sumar barst konunni sending hingað til lands frá móður sinni en sú síðarnefnda er spænsk og býr í heimaríkinu. Innihald sendingarinnar voru matvæli sem auðfundin eru á erlendri grund en vanfundin íslenskum verslunum. Má þar nefna spænska hráskinku, evrópska osta og ólífur af hærri gæðaflokki en hinn almenni íslenski neytandi hefur vanist út í búð.

Þegar pakkinn barst hingað til lands tók tollurinn hann til skoðunar og lagði á hann aðflutningsgjöld, alls 4.055 krónur. Þessu mótmælti konan enda taldi hún að sendingin ætti að vera tollfrjáls þar sem um afmælisgjöf frá móður sinni væri að ræða. Óumdeilt var að verðmæti sendingarinnar var undir tollfríðindaþröskuldi slíkra gjafa, það er 13.500 krónur, og taldi konan því að hún ætti að njóta slíkrar meðferðar.

Almenn neysluvara ekki gjöf

Með kæruúrskurði hafnaði tollgæslustjóri rökum konunnar. Kom þar fram að samkvæmt reglugerð um efnið þyrfti sending að vera send af sérstöku tilefni í lífi einstaklings, til að mynda brúðkaupi, jóla eða afmælis, til að geta talist gjöf. Að mati embættisins voru matvæli ekki þess eðlis að þau gætu verið slík tækifærisgjöf. Því undi konan ekki og kærði niðurstöðuna til yfirskattanefndar.

Í umsögn tollgæslustjóra fyrir nefndinni kom fram að embættið teldi að rétt væri að staðfesta niðurstöðu sína. Sagði þar að það væri ekki tollstjóra að „skilgreina hvað teljist tækifærisgjöf í almennum skilningi, heldur einungis að leggja mat á það hvers eðlis gjafirnar eru til að tryggja að rétt álagning fari fram.“ Tilgangur ákvæðanna sem á reyndi hefði ekki verið að heimila tollfrjálsan innflutning matvöru til einstaklinga.

„Tollgæslustjóri verði að líta til heildarmyndar við mat á því hvort tollfríðindi eigi við og grundvallist það m.a. af þeim fjölda sendinga sem komi til landsins og innihaldi almennar neysluvörur, svo sem matvæli, tannkrem og drykkjarvörur. Telji tollgæslustjóri það stríða gegn meginreglu um að undanþágur skuli túlka þröngt ef almennar neysluvörur, sem fáist að öðru leyti hér á landi, falli undir undanþágur frá almennri tollskyldu,“ segir í umsögn tollgæslustjóra.

Túlkun tollsins alltof þröng

Í niðurstöðu nefndarinnar sagði aftur á móti að ekki hafi verið bornar brigður á það að sendingin hafi stafað frá móður konunnar og verðmæti hennar hafi verið innan marka. Eldri úrskurðarframkvæmd bæri með sér að í vafatilvikum bæri að líta til þess tíma er sending lagði af stað eða kom til landsins. Svo vildi til að hún barst hingað akkúrat á afmælisdegi konunnar.

„Hvorki í [tollalögum né reglugerðum] er að finna nein ákvæði þess efnis að matvæli geti ekki undir neinum kringumstæðum talist til tækifærisgjafar eða séu að öðru leyti undanskilin tollfríðindum, [líkt og á til að mynda við um áfengi og tóbak],“ sagði í úrskurði nefndarinnra.

Þótt nefndin féllist á það með embættinu að undanþágur bæri að túlka þröngt þá væri ekki „grundvöllur fyrir svo þrengjandi skýringu ákvæðisins sem hinn kærði úrskurður felur í sér án tillits til þess sem ætla má að eigi við um tækifærisgjafir einstaklinga almennt.“ Ekki yrði annað séð en að um venjubundna afmælisgjöf væri að ræða og af þeim sökum var niðurstaða tollsins felld úr gildi.

Í úrskurðinum er ekki getið um afdrif sendingarinnar, það er hvort krónurnar 4.055 hafi verið greiddar með fyrirvara um lögmæti álagningarinnar, og gjöfin þá endað í maga afmælisbarnsins, eða hvort matvælin hafi fúlnað og spillst í vörslu tollsins.