Aðalmeðferð í máli Kára Stefánssonar og Karls Axelssonar fór fram í héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Málið er til komið vegna reikninga fyrir lögmannsþjónustu Karls, sem Kári telur að hafi farið fram úr samkomulagi þeirra á milli þar að lútandi. Reikningurinn sem um ræðir hljóðar upp á tvær milljónir króna. Þetta kemur fram á fréttavef Vísis.

Við aðalmeðferðina kom fram að Karl hafi sagt sig frá málinu þegar Kári hafi lýst megnri óánægju vegna reikninganna og þeirrar staðreyndar að Karl hygðist ekki flytja málið sjálfur fyrir héraðsdómi, að sögn Kára.

Segir símasamband hafa rofnað

Í skýrslu Karls fyrir dóminum kom fram að hann hafi ekki séð annan kost í stöðunni eftir að Kári hafi skellt á sig í tvígang þegar þeir ræddu málið og aðkomu Þórhalls Bergmanns, fulltrúa Karls, að málinu í gegnum síma. Hann hafi verið sérstaklega viðskotaillur í símtölum þeirra á milli. Kári neitar því hinsvegar að hafa skellt á Karl og sagði fyrir dóminum að símasambandið hefði rofnað.

Þá sagði Karl einnig að það væri rangt að hann hygðist ekki flytja málið sjálfur í héraði og að verkaskipting á milli hans og fulltrúa væri fullkomlega eðlileg.