201 Smári og Zipcar hafa ákveðið að vera í samstarfi um að staðsetja deilibíla í nýju hverfi 201 Smára sunnan við Smáralindina. Þar standa yfir framkvæmdir að nýju 670 íbúða borgarhverfi en fyrstu íbúðir verða afhentar síðar á árinu. Íbúar geta því leigt bíla í skamman tíma til að sinna erindum út fyrir hverfið.

Zipcar hefur starfað erlendis í 18 ár og á Íslandi síðan í september 2017. Fyrirtækið gefur fólki kost á að bóka, leigja og opna bíla auðveldlega í gegnum Zipcar appið. Allir íbúar í 201 Smára fá frítt meðlimagjald og aksturs inneign í hverjum mánuði með Zipcar fyrstu 3 árin.

Hverfið 201 Smári mun  bjóða upp á fjölbreytt íbúðaform þar sem mikið er lagt í að nýta öll rými til hins ýtrasta segir í fréttatilkynningu.

Hluti íbúða verður stúdíóíbúðir og upp í 5 herbergja íbúðir. Minnstu einingarnar verða um 50 fermetrar. Í upphafi verkefnis þá voru íbúar spurðir ýmissa spurninga um aðstöðu og mótun hverfisins og íbúðanna sjálfra. 201 Smári hefur unnið eftir þeim ábendingum og eru deilibílar hluti af þeim ábendingum sem komu fram.

Ingvi Jónasson, framkvæmdastjóri Klasa sem sér um uppbyggingu í 201 Smára, segir það mikið fagnaðarefni að geta boðað komu deilibíla í hverfið. „Það samræmist vel þeirri hugsun að nýta vel það sem við eigum og höfum til ráðstöfunar," segir Ingvi.

„Þrátt fyrir að nánast öll þjónusta sé í göngufæri þá séu alltaf erindi sem þarf að sinna út fyrir hverfið og þá er þetta mjög góð viðbót í þá samgöngumöguleika sem íbúar munu hafa og er einnig hluti af því snjallhverfi sem verið er að móta.“

Vilhjálmur Sigurðsson, framkvæmdastjóri ALP bílaleigunnar sem á og rekur Zipcar, segir það mikilvægt skref í uppbyggingu á deilibílakerfinu að staðsetja svona þjónustu svona nærri þungamiðju höfuðborgarsvæðisins.

„Mikil þjónusta og margir íbúar munu gera svona þjónustu enn skilvirkari og auðvelda að þétta net deilibíla til muna.  Zipcar er nú með 12 bíla í rekstri víðs vegar um höfuðborgarsvæðið," segir Vilhjálmur.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, segist fagna komu deilibíla í Kópavoginn.  „Það fer vel á því að fá deilibíla hingað í miðju höfuðborgarsvæðisins. Deilibílar og deilihagkverfið í heild sinni er framtíðin og það sem koma skal," segir Ármann.