Í dag stóð Landssamband Sjálfstæðiskvenna fyrir hádegisfundi á Nauthól undir yfirskriftinni Deilihagkerfið - Nýr veruleiki í Viðskiptum. Á fundinum flutti Jökull Sólberg, stofnandi Lemonade, erindið „Deilihagkerfið og þjóðfélagslegur ábati“ en hann telur að deilihagkerfið sé óheppilegt orð fyrir fyrirbrigðið.

Jökull talaði um uppruna deilihagkerfisins, tæknin væri ekki ný en skalinn væri mikilvægur, það að snjallsímar væru komnir í hendur allra hefði hrundið af stað þessari þróun. Hann lýsti markaðstorgum deilihagkerfisins þar sem fyrirtæki tengja saman framboð og eftirspurn, eins og til að mynda airbnb.

Jökull færði rök fyrir því að deilihagkerfið væri ef til vill óheppilegt orðalag. Tímaritið The Economist hóf að tala um það sem on-demand economy og hafa fleiri fjölmiðlar farið að gera það. Jökull sagði að það væri óheppilegt fyrir fyrirtæki sem fá þennan stimpil en eru kannski að selja vöru beint. Þau vilja ekki endilega falla undir deilihagkerfinu, það er ekki endilega þeim til hagsbóta. „Ef þú deilir einhverju þá er gefið í skyn með orðalaginu að það sé ekki endilega verið að rukka fyrir það og þá hugsar fólk það sem svo að vera að skiptast á einhverju og deila vörum ekki gegn gjaldi. En viðskiptamódelin ganga yfirleitt út á að nýta eitthvað betur en samt rukka fyrir það. Þessi markaðstorg eru greiðslumiðlun líka,“ sagði Jökull.

Varast skal einokun

Jökull greindi frá einokunareðli markaðstorga. Ef maður notar eBay þá þegar maður er búinn að selja sína fyrstu vöru og gengur vel og fer að fá stjörnugjöf fer maður ekki annað – maður byggir upp vörumerkið sitt og læsist þarna inni. Til dæmis með airbnb fylgir fólki orðspor fyrir bæði að hýsa fólk og koma í heimsókn. Ef orðspor læsast svona inn eru fyrirtækin orðin ónæm fyrir samkeppni. Einokunarstaða er ekki góð, en Jökull telur að hún geti orðið jafnvel meiri en hjá Microsoft á sínum tíma.

Spurður að því hvort setja ætti reglur til að auka samkeppni telur hann það ekki tímabært. Þetta sé frekar spá um framtíð. En eftir að þessi hagkerfi þroskast telur Jökull að það munu koma upp fyrirtæki þar sem fólk spyr sig hvort sé heppilegra að hafa meiri samkeppni á þeim markaði. „Maður sér fyrirtækin ekki endilega nýta sér einhverja einokunarstöðu, ekki endilega komin í hana en eðli þessara viðskiptamódela eru klárlega þannig að það geti komið upp. Ég held það sé best núna fyrir alla að bíða og sjá en það er ekki komin tími til að grípa inn í,“ segir Jökull.