Deilihagkerfið er þróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár erlendis og hefur nú náð fótfestu hér á landi. Um er að ræða nýjar leiðir til samnýtingar á auðlindum eða framleiðslutækjum. Eitt helsta dæmi um deilihagkerfið á Íslandi eru þær fjölmörgu íbúðir í Reykjavík sem nú eru skráðar á vefinn Airbnb. Áætlað er að tæpar 1.000 íbúðir séu skráðar til leigu fyrir ferðamenn á vefnum. Einnig hafa sprottið upp ýmsar síður eins og www.samferda. net og skutlsíður á Facebook þar sem fólki býðst far með ákveðnum aðila milli landshluta gegn því að deila bensínkostnaðinum. M

ikil endurnýting hefur einnig verið á hlutum en nú er afar vinsælt að selja notaða hluti, sem ekki lengur er þörf á, í gegnum netið. Þetta hefur leitt til betri nýtingar því minna er hent en ella. Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, segist sem hagfræðingur fagna þeirri nýjung að verið sé að nýta framleiðslutækin betur. „Þá væru ekki hálftómir bílar að keyra milli Reykjavíkur og Akureyrar svo dæmi sé tekið,“ segir hann.

Gunnar Haraldsson segir deilihagkerfið vera í stöðugri þróun. Nýjasta þróun í deilihagkerfinu er sú að nú hafa forsvarsmenn Airbnb þróað nýja síðu þar sem fólki býðst að bjóða ferðamönnum í þriggja rétta máltíð heim til sín gegn vægu gjaldi. Gunnari þykir trúlegt að þróunin verði sú að þessi þjónusta muni einnig ná til Íslands. Möguleikarnir á deilihagkerfi hafa sérstaklega aukist í ljósi tæknivæðingar nútímans. „Þessi þróun gæti ekki átt sér stað nema vegna allra fjarskiptatækja, farsíma, internetsins og samfélagsmiðla sem nýta má. Þessi tækni gerir þetta allt mögulegt og auðveldara,“ segir Gunnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .