„Hér eru allar aðstæður til staðar fyrir bólumyndun og það er alltaf hætta á að hún hefjist. En vandinn við slíkar bólur er að það getur verið erfitt að sjá þær meðan þær eru að blása upp,“ segir Flóki Halldórsson, framkvæmdastjóri verðbréfafyrirtækisins Stefnis, dótturfyrirtækis Arion banka.

Flóki segist í samtali við Viðskiptablaðið deila þeim áhyggjum sem aðrir hafa af bólumyndun á hlutabréfamarkaði.

Flóki bendir aftur á móti á að þótt miklar hækkanir hafi verið á gengi bréfa einstakra félaga á þessu ári, séu hér rótgróin félög sem hafa lítið hækkað á sama tíma eða jafnvel lækkað. Þetta séu því langt því frá einhliða hækkanir á öllum félögum. Þrátt fyrir skaðsemi haftanna segir Flóki að það sé lítið sem gefi tilefni til bjartsýni um að þau séu á leiðinni á brott.

„Hins vegar hafa bæði forsætis- og fjármálaráðherra verið með nokkuð sterkar yfirlýsingar um að það muni mikið gerast fyrir áramót. Maður bíður spenntur eftir því að sjá hvaða spil þeir hafa uppi í erminni. Eins og staðan er núna er erfitt að sjá hvað það gæti verið.“