Flóki Halldórsson, framkvæmdastjóri Stefnis, segir að í aðdraganda kosninga í vor hafi honum fundist mikil verðbólga vera í spilunum miðað við loforð stjórnmálamannanna, en núna kveði við svolítið annan tón. „Fjármálaráðherra hefur talað um að það verði enginn afsláttur gefinn á því að ná halla ríkissjóðs niður. Það er nauðsynlegt, enda ekki endalaust hægt að auka skuldir ríkissjóðs í þessari stöðu. Á endanum kemur að því að lækka þurfi skuldir. Þegar þjóðir eru orðnar svona skuldsettar er það gjarnan ávísun á minni hagvöxt á næstu árum og við erum nú þegar í þröngri stöðu og höfum ekki efni á því að auka skuldir enn frekar.“

Aðspurður segir Flóki erfitt að svara því hvort mikilvægara sé að afnema gjaldeyrishöft eða lækka skuldir ríkissjóðs. „Frá þröngu sjónarhorni fjármálamarkaðarins myndi ég vilja sjá hvernig vinda eigi ofan af gjaldeyrishöftunum með sem hröðustum hætti, en til langs tíma er skuldalækkun ríkissjóðs gríðarlega mikilvægt atriði.“

Hann segir að þróun eignasamsetningar lífeyrissjóðanna undanfarið sé ekki heillavænleg. „Nú þegar er hlutfall ríkisskuldabréfa orðið of hátt hjá sjóðunum. Ef við horfum bara á skuldabréfasafn lífeyrissjóðakerfisins er hlutur bréfa með ábyrgð ríkissjóðs komið í 74% og það er meira en eðlilegt getur talist. Við erum í litlu hagkerfi með fábreytta atvinnuhætti og hér koma því efnahagsleg áföll. Áhættudreifing skiptir því gríðarlega miklu máli. “

Viðtal við Flóka má lesa í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .