Úrskurðarnefnd umhverfis- og skipulagsmála hefur ógilt deiliskipulag á flugvallarsvæðinu í Vatnsmýrinni sem samþykkt var á síðasta ári. Ástæða þess að úrskurðanefndin komst að þessari niðurstöðu var vegna þess að formgalli var á málsmeðferð deiliskipulagsins. Deiliskipulag frá árinu 1986 er því ennþá í gildi á svæðinu. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu í dag.

Formgallinn snéri að því að breytingu á staðreyndavillu sem gerð á deiliskipulaginu eftir afgreiðslu borgarstjórnar. Skipulagsstjóri breytti villunni eftir ábendingar en málið fór hins vegar ekki aftur fyrir borgarstjórn eins og stjórnsýslulög gera ráð fyrir.

Kærendur í málinu voru eigendur flugskýla á Fluggörðum á flugvallarsvæðinu, en þeir töldu að ekki hafi verið haft samráð við þá og að málsmeðferð hefði verið ófullnægjandi. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri segir að þetta breyti engu um uppbyggingaráform svæðisins, þetta muni í mesta lagi tefja málið um nokkrar vikur.