Harðvítugar deilur spruttu upp á dögunum á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar þegar kjósa átti stjórnarmenn í aðalstjórn og varastjórn. Deilurnar eru þær nýjustu í röð langra deilna sem ná aftur til ársins 2007. Líkt og fram hefur komið í fyrri frétt Viðskiptablaðsins var deilt um niðurstöður kosningar og fundarstjórn á aðalfundinum.

Ver fundarstjórn sína

Á þriðjudag sl. varði Arnar Sigurmundsson fundarstjórn sína í aðsendri grein í Morgunblaðinu. Segir hann fundinn hafa farið vel fram og lýsir atburðarásinni á þann veg að hann hafi verið kallaður til talningarhópsins en þá hafi komið í ljós að einn hluthafi hafi greitt atkvæði en láðst að stinga því í kjörkassann. Við talningu hafi áður komið í ljós að heildaratkvæðamagn í kjörkassa stemmdi ekki við afhenta kjörseðla við upphaf fundar. Runólfur hafi óskað eftir því að varpað yrði hlutkesti milli tveggja frambjóð- enda sem jafnmörg atkvæði höfðu hlotið en atkvæðaseðli sem barst meðan á talningu stóð yrði vísað frá.

Í pistlinum segir Arnar það mjög mikilvægt að vilji hluthafa birtist í niðurstöðu stjórnarkjörs svo yfir vafa sé hafið. Einfaldast hafi verið að endurtaka stjórnarkjörið og fá skýra og óumdeilanlega niðurstöðu, Vilji hluthafa hafi birst í niðurstöðum endurtekins stjórnarkjörs. Úrskurður fundarstjóra hafi því verið í anda leikreglna í hlutafélögum og í samfélaginu.

Í óbirtri grein Péturs Guðmundssonar hæstaréttarlögmanns, sem birtist í fjölmiðlum á næstu dögum, er þessi afstaða Arnars gagnrýnd. Bendir Pétur á nokkra hluti sem hann telur orka tvímælis. Segir hann til að mynda að í grein Arnars sé það hvergi nefnt að stjórnarkjörið hafi farið fram sem margfeldiskosning sem sé sérstakt lögbundið kosningakerfi og breytir eðli kjörsins. Afleiðingar þess séu m.a. þær að aðrar reglur gilda um hvaða meirihluta þarf til að víkja stjórnarmönnum frá svo sem sjá má í 64.gr. hlutafélagalaga en þar segi m.a. að til að víkja frá 5 manna stjórn þurfi atkvæði 5/6 sem er aukinn meirihluti en ef beitt hefði verið meirihlutakosningu þarf einungis helming atkvæða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi undir Tölublöð.