Skrifstofustjóri Alþingis segir að ríkisstjórnarflokkarnir muni fá fimm formenn fastanefnda á Alþingi en stjórnarandstaðan þrjá, verði þeir skipaðir eftir þingstyrk, en enn á eftir að kjósa í átta nefndir og skipa formenn þeirra.

Hins vegar ef ekki náist samkomulag við stjórnarandstöðuna ráði meirihlutinn því hverjir verða formenn, að því er fram kemur í frétt RÚV um málið.

Vill fimm en ekki fjóra miðað við hefð

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins telur eðlilegt að flokkur hans fái fimm nefndarformenn, en hann hann vonast eftir því að formenn allra þingflokka myndu funda um málið í dag. Það næst þó ekki því ekki eru allir þeirra í bænum svo stefnt verður að fundi á miðvikudag.

Svandís Svavarsdóttir, formaður þingflokks VG, segir hins vegar að samkvæmt þingskapalögum beri að semja um formennsku í nefndum á grundvelli þingstyrks, sem þýði að jafnmargir formenn eigi að koma úr meiri- og minnihluta.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur tekið undir þetta.

Stjórn fengi fimm en stjórnarandstaða þrjá ef hefð fylgt

Rúv talaði við Helga Bernódusson, skrifstofustjóra Alþingis, sem segir að þingskapalög geri ráð fyrir að fyrst verði reynt að ná samkomulagi um nefndarformennina.

Sé þá vanalega skipt eftir hlutfallsreglu eða þingstyrk, en samkvæmt því fengju Sjálfstæðismenn þá fjóra í nefndum en Viðreisn, Píratar, Framsókn og VG einn hver.

Það myndi þýða fimm frá stjórninni og þrjá frá stjórnarandstöðuna. Hins vegar ef ekki næst samkomulag mun hver nefnd kjósa sér formann á fyrsta fundi sínum en þá verður ákvörðunin alveg á hendi ríkisstjórnarflokkanna að velja formennsku í öllum nefndunum.