Flestir kannast við teiknimyndafígúruna Mighty Mouse, eða Ofurmús, sem fram kom í myndasögu í fyrsta skipti árið 1942 og hefur barist við margar glæpakisur og fleiri þrjóta síðan þá. Nú eiga Apple-tölvufyrirtækið og fyrirtækið Man & Machine hins vegar í harðvítugum deilum um nafnið, sem bæði vilja nota á ákveðna tegund tölvumúsa. Sjónvarpsrisinn CBS á réttinn á Mighty Mouse myndefni og varningi því tengdu en seldi Apple leyfi árið 2005 til að nota nafnið á framleiðslu sína. Fyrirtækið Man & Machine hefur hins vegar framleitt tölvumýs með þessu heiti síðan árið 2004 og telur að CBS hafi ekki haft leyti til að semja við Apple um heitið, á þeim forsendum að réttur þeirra á Mighty Mouse-fyrirbærinu nái ekki til tölvumúsa.

Vinsæl mús á sjúkrahúsum

Mighty Mouse-tölvumýs þær sem Man & Machine framleiðir munu einkennast af því að vera slitsterkar, hrinda frá sér kemískum efnum og vera vatnsþéttar. Munu margar sjúkrastofnanir í Bandaríkjunum nota þær vegna þessara eðliskosta.