Ferðamálastofa hyggur á auglýsingaherferð í sumar, þar sem Íslendingar verða hvattir til þess að ferðast innanlands. Íslensk ferðaþjónusta er sem kunnugt er í uppnámi vegna heimsfaraldursins, en jafnframt er viðbúið að víða erlendis verði ferðatakmarkanir fram eftir sumri.

Það hefur hins vegar vakið nokkurn kurr að herferðin miðast við að kaupa lungann af birtingunum hjá erlendum félagsmiðlum, en síður hjá innlendum fjölmiðlum. Rekstur þeirra er hins vegar í þvílíkum járnum að ráðgerðir eru sérstakir ríkisstyrkir til þeirra, sem hluti af viðbrögðum við faraldrinum.

Athygli vekur að innan ríkisstjórnarinnar virðast skiptar skoðanir um þetta og t.d. eru Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra ekki á einu máli um þetta. Þau eru jafnframt formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins.