Eins og fram hefur komið í umfjöllun Viðskiptablaðsins hefur starfshópur á vegum Samtaka atvinnulífsins (SA) og Viðskiptaráðs lagt til að stofnuð verði ný hagsmunasamtök atvinnulífsins sem þó byggi á grunni SA auk þess sem Félagi atvinnurekenda og Viðskiptaráði verði boðin þátttaka í hinum nýju samtökum.

Nánar var fjallað um málið í ítarlegri fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn en ljóst er að hér er um viðkvæmar hugmyndir að ræða. Forsvarsmenn þeirra samtaka sem um ræðir vildu lítið tjá sig í samtali við Viðskiptablaðið og sögðu að enn ætti eftir að taka tillögurnar til umræðu í stjórnum aðildarfélaganna.

Eitt af því sem rætt hefur verið um er staða Viðskiptaráðs innan hinna nýju samtaka. Mörgum þykir eftirsjá af því sem kalla má hugveitu (e. think tank) hlutverki ráðsins , þ.e. að það standi fjarri gerð kjarasamninga og annarra samninga við opinbera aðila og samtök launþega og einblíni þess í stað á aukið viðskiptafrelsi og umræðu um eflingu atvinnulífsins.

Með öðrum orðum er Viðskiptaráð ekki bundið af samningum við stjórnvöld og samtök launþega og hefur því frjálsari hendur til að fjalla um þau mál sem snúa að atvinnulífinu.

Á móti kemur að Viðskiptaráð er í raun ekki stórt apparat í samhengi við önnun samtök innan SA og því gæti sjálfstæð skrifstofa innan samtakanna mögulega sinnt þessu hlutverki. Fari svo að sú skrifstofa fái að starfa sjálfstætt er strax dottin upp fyrir hugmyndin um að atvinnulífið tali einni röddu.

Hafa ber í huga að um 280 fyrirtæki eiga aðild að Viðskiptaráði en þau eru flest ef ekki öll aðilar að SA með einum eða öðrum hætti. Þetta er það sem heyra má á þeim aðilum sem Viðskiptablaðið ræddi við en af þessu eina máli má merkja að mikil og ströng umræða mun fara fram um málið á næstu vikum.

Nánar er fjallað um málið í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.