Frá árslokum 2016 hefur Isavia staðið í stappi við ríkisskattstjóra um uppgjör á virðisaukaskatti. Innsendar virðisaukaskattskýrslur félagsins frá þeim tíma hafa ekki hlotið afgreiðslu og telur fyrirtækið sig eiga inni rúmlega 5,2 milljarða.

Bitbein aðila er hvort Isavia njóti núllskatts en í því felst að félagið fái endurgreiddan virðisaukaskatt af aðkeyptum vörum og þjónustu en þurfi ekki að skila útskatti. Frá stofnun félagsins árið 2010 hafa skattskil þess verið með því móti og var ekki gerð athugasemd við það fyrr en við skil á skýrslu fyrir september og október ársins 2016. Fyrir jól var samþykkt breyting á virðisaukaskattlögum sem tekur af öll tvímæli um það að félagið njóti núllskattsins frá og með síðustu áramótum en eftir stendur vafi um skýrslur síðustu ára.

„Þarna er að ræða endurgreiðslu á innskatti af reikningum vegna reksturs og framkvæmda í flugstöðinni. Lagabreytingin leysir úr þessu máli til framtíðar en breytt túlkun skattsins kom okkur nokkuð á óvart enda höfðu allar skýrslur verið afgreiddar athugasemdalaust um árabil," segir Sveinbjörn Indriðason, starfandi forstjóri Isavia.

Samkvæmt ársreikningi Isavia mun það hafa „veruleg áhrif" ef niðurstaða málsins verður félaginu í óhag. Áhrifin á rekstur og efnahag yrðu neikvæð um 862 milljónir, um 4,6 milljarðar til hækkunar á varanlegum rekstrarfjármunum en samsvarandi lækkun yrði á öðrum skammtímakröfum. Staða eiginfjár myndi lækka um 690 milljónir að teknu tilliti til skattaáhrifa. Kæmi til þess að skuld Wow tapist einnig í heild munu tveir milljarðar að auki bætast við.

„Ef ákvæðinu hefði ekki verið breytt þá hefði það haft áhrif á framtíðaruppbyggingu," segir starfandi forstjóri. Enn liggur ekki fyrir endanlegur úrskurður ríkisskattstjóra. Verði hann félaginu í óhag kemur til skoðunar að kæra úrskurðinn til yfirskattanefndar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .