Í höfuðstöðvum sænska ríkisfyrirtækisins Absolut Vodka var á dögunum haldið upp á að milljarðasta flaskan hafi selst en drykkurinn hefur slegið í gegn um allan heim svo ekki sé meira sagt. Farið var hratt af stað og hefur mikil áhesla verið lögð á öfluga markaðssetningu frá upphafi en drykkurinn kom fyrst á markað árið 1979. Af áfengum drykkjum er Absolut þriðji vinsælasti í heiminum og jókst sala þess í ár um 7% frá fyrra ári. Helstu keppinautar eru Smirnoff og Bacardi sem einnig hafa sótt á undanfarin ár með góðu gengi.

Óhætt er að segja að mikið vatn, eða í þessu tilfelli áfengi, hafi runnið til sjávar frá því Absolut vodka var stofnað og stöðugar breytingar einkennt fyrirtækið bæði hvað varðar markaðssetningu og útlit á umbúðum vörunnar. Það er ekki síður ástæða fyrir því að drykkurinn hefur ávallt vakið eftirtekt og jákvæð viðbrögð neytenda en baráttan á vodkamarkaðinum hefur alltaf verið hörð. Hvorki meira né minna en fjórar tegundir af vodka eru settar á markað í hverjum mánuði í Bandaríkjunum en yfir 60% af allri sölu fyrirtækisins er þar í landi.

Veltir milljörðum árlega

Bengt Baron, framkvæmdastjóri hjá Vin&Spirit, ríkisfyrirtækinu sem á og rekur Absolut, segir að þó svo flestar nýjar vodkategundir sem komi á markað, detti upp fyrir innan skamms tíma, taki þær pláss í hillunum og nái athygli viðskiptavina á meðan þær eru uppi og því sé nauðsynlegt fyrir stjórnendur Absolut að vera stöðugt á verðinum því þó fyrirtækið sé veldi í dag, sé ekki öruggt að það verði það einnig á morgun. Hjá fyrirtækinu starfa í dag um 2200 manns og veltir fyrirtækið milljörðum króna á hverju ári.

Markaðsstarf fyrirtækisins hefur verið mjög öflugt og vakið athygli um allan heim fyrir ferskar og nýjar hugmyndir en þrátt fyrir að fyrirtækið hafi alla tíð verið í eigu ríkisins hefur alltaf verið metnaður fyrir starfinu og að það standi sig vel enda árangurinn verið góður. Það sama er þó ekki hægt að segja um öll ríkisfyrirtæki, og eru margir markaðsmenn í Svíþjóð á því að hægt sé að gera enn betur með Absolut Því sé tímabært að ríkið selji og leyfi, einkaaðilum, markaðinum, að taka við. Um þetta mál hefur mikið verið deilt í Svíþjóð á undanförnum árum og ekki hægt að segja til um hvor hópurinn sé stærri sem kemur kannski mörgum á óvart en félagshyggjumenn í Svíþjóð eru eflaust fleiri en í öðrum löndum Evrópusambandsins og markaðshyggjan ekki eins sterk þar í landi og annars staðar.