Nú á dögunum var opnuð vefsíðan tekjur.is. Eins og nafn síðunnar gefur til kynna þá veitir hún upplýsingar um tekjur, en inni á síðunni má nálgast upplýsingar um launa- og fjármagnstekjur allra fullorðinna Íslendinga. Þessar upplýsingar byggja á skattskrá ríkisskattstjóra en skattskráin sýnir skattgreiðslur einstaklinga - tekjuskatt, útsvar og fjármagnstekjuskatt. Kaupa þarf aðgang að upplýsingum síðunnar, fyrsti mánuðurinn kostar 2.790 kr. og mánaðargjald eftir  það er 790 kr. Eins og staðan er nú veitir síðan aðgang að tekjum allra fullorðinna einstaklinga fyrir árið 2016.

Deilt hefur verið um hvort þetta framtak vefsíðunnar standist lög. Björgvin Guðmundsson, einn af eigendum KOM almannatengsla, greindi meðal annars frá því í tísti að hann hafi lagt fram kvörtun til Persónuverndar. Telur Björgvin að vinnsla og miðlun upplýsinga um tekjur allra Íslendinga sé ólögleg og telur birtingu slíkra persónuupplýsinga stangast á við rétt sinn til þess að njóta friðar um einkahagi sína. Morgunblaðið greindi svo frá því að í byrjun vikunnar höfðu níu erindi borist til Persónuverndar vegna síðunnar. Í sömu frétt er haft eftir Helgu Þórisdóttur, forstjóra Persónuverndar, að Persónuvernd muni skoða hvort vefsíðan flokkist sem fjölmiðill, en í gegnum tíðina hafi stofnunin látið niður falla erindi sem hafa borist henni vegna tekjublaða Frjálsrar verslunar og DV þar sem að þar takast á tvö sjónarmið sem bæði eru stjórnarskrárvarin - friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsi.

Fór fram á lögbann

Lögfræðingurinn Ingvar Smári Birgisson, sem jafnframt er formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, lagði fram lögbannsbeiðni á hendur tekjur.is. Í gær hafnaði Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu kröfunni. Ingvar segir sennilegt að hann muni láta reyna á málið fyrir dómstólum. „Í ljósi þess að sýslumaður telur rétt eins og ég að sennilega sé brotið á lögvörðum rétti mínum og allra Íslendinga sem birtast á tekjur. is, tel ég rétt að leita réttar míns fyrir dómstólum." Ingvar vill að persónuupplýsingar almennings verði afmáðar af síðunni.

„Með tilkomu þessarar síðu á sér stað ákveðin stökkbreyting á því hvernig er fjallað um tekjur Íslendinga. Áður fyrr hefur verið fjallað um þetta í DV og Tekjublaði Frjálsrar verslunar sem eru til sölu í skamma tíð. Í ljósi nýrra og öflugri persónuverndarlaga, sem fjalla um hvernig eigi að meðhöndla persónuupplýsingar og í ljósi þess að heimildarákvæði fyrir birtingu úr skattskrá Ríkisskattstjóra er gamalt og sett fyrir tíma internetsins, þá tel ég að það megi leiða mjög sterk rök að því að hér sé um ólögmætt athæfi að ræða.

Mér þykir rétt að skorið verði úr um það hvort lögmætt sé að starfrækja gagnagrunn með persónuupplýsingum allra landsmanna sem seldur er aðgangur að. Það sem ég vil líka að gerist er að það verði tekin umræða í íslensku samfélagi um það hvernig við viljum haga þessum málum. Það hefur verið bent á Noreg til dæmis í þessu samhengi þar sem hægt er að fletta upp tekjum fólks. Þar er það hið opinbera sem rekur síðuna og fólk fær meldingu ef því er flett upp. Ljóst er að í tilfelli tekjur.is vitum við ekki einu sinni hver á síðuna, við vitum ekki hverjum er flett upp og hvenær og í hvaða tilgangi það er gert. Það getur vel verið að fyrirtæki séu að fletta upp launum viðskiptavina til að reyna að skapa sér einhverja stöðu. Ég held að það sé mjög röng en að sama skapi ágæt hugsjón að þetta snúist bara um gagnsæi í samfélaginu, en það er ljóst að hér er verið að hagnýta persónuupplýsingar með, að mér finnst, mjög vafasömum hætti," segir Ingvar.

Fordæmi fyrir birtingu tekna mýmörg

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður tekjur.is, segir í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins að hann telji að lagaheimildin fyrir birtingunni sé afdráttarlaus. „Fordæmin fyrir birtingu sambærilegra upplýsinga eru mýmörg og aldrei hefur lögbann verið sett á þau, t.d. útgáfu Tekjublaðs Frjálsrar verslunar og Persónuvernd vísaði slíku máli síðast frá á föstudaginn var. Ég tel umbjóðanda minn standa traustum fótum, lagalega séð," segir Vilhjálmur.

Spurður um hvernig gögnin sem birt hafa verið á tekjur. is hafi verið fengin, segir Vilhjálmur að umbjóðandi hans hafi fengið gögnin hjá ríkisskattstjóra og enginn annar hafi þau undir höndum. Spurður um hver beri ábyrgð á daglegum rekstri félagsins sem sér um  tekjur.is, segir Vilhjálmur að ábyrgðin sé lögum samkvæmt. „Það er hópur einstaklinga sem stendur að tekjur. is. Það liggur fyrir að tekjur valdra aðila hafa verið birtar í sérstökum tekjublöðum í gegnum árin. Er ekki bara ágætt að láta eitt yfir alla ganga? Ég held að þetta muni líka hjálpa til við að útrýma   þjóðfélagsböli eins og launamun kynjanna.  Það er t.d. alveg ljóst að tækifæri vinnuveitanda til að mismuna starfsfólki á grundvelli kynferðis eru minni núna en fyrir einni viku. Það er frábært," segir Vilhjálmur.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .