*

laugardagur, 30. maí 2020
Innlent 20. júní 2019 16:04

Deilt um tæki og tól Jamie's Italian

Aðfararbeiðni þrotabús fyrrverandi rekstraraðila staðarins varðandi áhöld, tæki og innanstokksmuni var hafnað.

Jóhann Óli Eiðsson
Jamie's Italian er til húsa í Pósthússtræti 11.

Landsréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms um að hafna því að þrotabúi Borgarhorns ehf., fyrrverandi rekstraraðila Jamie‘s Italian á Íslandi, fái afhent tæki, innanstokksmuni, áhöld og hugbúnað sem þrotabúið telur í vörslum Keahótela ehf.

Þegar rekstur Jamie‘s Italian hófst var undirritaður samningur milli Keahótela og Austurvallar ehf., móðurfélags Borgarhorns, um leigu á Pósthússtræti 11 ásamt öllu fylgifé sem tilheyrir veitingarekstri hótelsins og var fyrir hendi í veitingaaðstöðu við undirritun samningsins. Þá var þar kveðið á um að við gjaldþrot eða riftun samnings falli allir lausafjármunir til leigusala.

Enginn framleigusamningur var gerður milli Austurvallar og Borgarhorns. Keahótel riftu samningnum undir lok ágústmánaðar í fyrra og tveimur vikum síðar lagði stjórn Borgarhorns fram beiðni um gjaldþrotaskipti. Ástæðan var sú að Jamie‘s Italian International Ltd., eigandi sérleyfisins Jamie‘s Italian, hefði rift samningi við félagið og rekstrarforsendur væru því brotnar.

Gjaldþrotaúrskurður var kveðinn upp 19. september 2018 og var tæplega 205 milljóna kröfum lýst í búið. Forgangskröfur námu 71,7 milljónum. Keahótel lýstu kröfu í búið en henni var hafnað þar sem hún barst eftir að fresti til þess lauk.

Óljóst hver á tækin nú

Samkvæmt ársreikningi Borgarhorn átti félagið rekstrarfjármuni, það er innréttingar, hugbúnað, áhöld og tæki í húsnæðinu, sem metnir voru á rúmlega 125 milljónir króna. Krafðist skiptastjóri þess að fá stóran hluta umræddra eigna afhenta en því höfnuðu Keahótel. Eftir þær lyktir krafðist hann þess að fá umrædda muni afhenta með beinni aðfarargerð.

Skiptastjórinn benti á að í umræddu húsnæði sé enn rekinn veitingastaður undir merkjum Jamie‘s Italian. Taldi hann einnig að fyrrgreindur samningur Austurvallar og Keahótela gæti ekki stofnað síðarnefnda aðilanum beinan eða óbeinan eignarétt yfir umræddum eignum. Keahótel hafi nú leigt húsnæðið til annars aðila sem tekið hafi yfir rekstur staðarins. Umrædd tæki séu enn í húsinu og beri að afhenda þrotabúinu þau.

Fyrir dómi byggði Keahótel á móti á því að aðfararbeiðnin væri ekki nægilega vel úr garði gerð. Þess væri aðeins krafist að tiltekin „áhöld, tæki, innanstokksmunir og hugbúnaður“ verði tekin með beinni aðfarargerð en hvorki í beiðninni né fylgiskjölum sé að finna nánari tilgreiningu á þeim. Þá sé ósannað með öllu hvaða muni Borgarhorn hafi komið með sér inn í húsið og hvaða muni fyrirsvarsmenn þess hafi haft á brott í kjölfar rekstrarstöðvunarinnar.

Tengslin milli félaganna algjör

Enn fremur taldi Keahótel að þó leigusamningurinn hafi ekki verið gerður beint við Borgarhorn þá gildi ákvæði hans fullum fetum. Borgarhorn geti ekki öðlast betri rétt en Austurvöllur eða búist við því að hagnýta sér fasteign og fylgifé án skuldbindinga. Á það var enn fremur bent að gífurleg tengsl hafi verið milli Borgarhorns og Austurvallar en sömu einstaklingar sátu í stjórnum beggja félaga.

Í úrskurði héraðsdómara var vikið að því að ekki hafi verið gerð nein tilraun til að sundurgreina þá muni sem krafist var afhendingar á heldur látið nægja að vísa til 75 reikninga. Fjölmargir þeirra voru á þýsku og nokkrir á ensku og einhverjir ekki aðeins tilkomnir vegna tækjakaupa heldur einnig vinnu. Þá væri hluti hinna umþrættu muna, á borð við raflagnir og pítsaofn, nú naglfastir Pósthússtræti 11. Aðfararbeiðnin var því ekki talin fullnægjandi.

Varðandi skuldbindingargildi samningsins milli Austurvallar og Keahótela fyrir Borgarhorn benti dómurinn á tengsl stjórnarmanna félaganna.

„Ljóst er að þeir sem heimild höfðu til að skuldbinda Borgarhorn ehf. þekktu ákvæði  umrædds leigusamnings  vel  enda  um  sömu  aðila    ræða  og  skrifuðu  undir  samninginn  fyrir  hönd Austurvallar  ehf.  Þá  er  það  meginregla  leiguréttar    framleigutaki  nýtur  réttar  síns  einungis  í skjóli leigusamnings á milli eiganda leiguandlags og framleigusala, og getur með framleigusamningnum einum saman ekki öðlast frekari rétt en hinn síðarnefndi,“ segir í úrskurðinum. Vafi væri því uppi um það hver væri í raun lögmætur eigandi áhaldanna.

Af þeim sökum var aðfararbeiðninni hafnað og staðfesti Landsréttur þann. Forsendur úrskurðar Landsréttar lutu að því að aðfararbeiðnin sjálf uppfyllti ekki þau skilyrði sem til þeirra eru gerðar.