Leikskólastarfsmaður í Fjarðabyggð lagði á fimmtudag Vátryggingafélag Íslands (VÍS) í Héraðsdómi Reykjavíkur. Deilt var til rétt hennar um rétt til bóta eftir að hún skar sig á töfrasprota við heimilisstörf.

Slysið átti sér stað í janúar 2016 en þá var hún í fæðingarorlofi. Konan var með fjölskyldutryggingu hjá VÍS og hafði sem starfsmaður Fjarðabyggðar slysatryggingu samkvæmt kjarasamningi. Tilkynnti hún félaginu um tjón sitt á þar til gerðu eyðublaði um tveimur vikum eftir að það varð.

Ekkert heyrðist hins vegar frá tryggingarfélaginu í rúmlega eitt og hálft ár og leitaði hún þá til lögmanns. Sá sendi VÍS bréf í október 2018 og féllst félagið á að greiða bætur úr fjölskyldutryggingunni en seinna meir var því hafnað að greiða bætur úr launþegatryggingunni. Ástæðan fyrir því var sú að tilkynning um slysið hefði átt sér stað of seint.

Í niðurstöðu dómsins segir að breyting hafi verið gerð á tilkynningarákvæði vátryggingalaganna árið 2015 en umrædda breytingu mátti rekja til umsagnar ASÍ við þinglega meðferð málsins.

„Að mati dómsins verður að skýra ákvæðið eftir orðanna hljóðan og getur í ljósi íþyngjandi eðlis tilkynningarfrestsins ekki komið til greina að skyra fyrirmæli um hvernig unnt er að rjúfa frestinn með þrengjandi hætti,“ segir í dóminum.

Var því fallist á kröfu konunnar og réttur hennar til bóta úr launþegatryggingunni viðurkenndur. Málskostnaður, 900 þúsund krónur, var felldur á VÍS.