© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)
Winklevoss tvíburabræðurnir Cameron og Tyler hafa ákveðið að áfrýja ekki niðurstöðu dómstóla í máli um tilurð Facebook. Málið snýst um 65 miljóna dala samkomulag milli bræðranna og Mark Zuckerberg, stofnanda Facebook. Þeir hafa haldið því fram að Zuckerberg hafi stolið hugmyndinni að Facebook frá sér. Samkomulag náðist um að Zuckerberg myndi greiða þeim 65 milljónir dala.

Bræðurnir vildu hinsvegar rifta samkomulaginu og töldu að upphæðin ætti að vera hærri. Þeir telja að Facebook hafi leynt þeim upplýsingum um raunverulegt virði félagsins. Deilan milli bræðranna og Zuckerberg var efniviður kvikmyndarinnar The Social Network sem kom út á síðasta ári.

Í dag tilkynntu Cameron og Tyler að niðurstöðu um að samkomulagið standi verði ekki áfrýjað til Hæstaréttar. Reuters fréttastofa greinir frá málinu og segir að þeir hafi ekki gefið nánari skýringar á hvers vegna þeir ætli ekki að áfrýja.