Gerðardómur hefur boðað deiluaðila til fundar í kjaradeilu BHM og ríkisins á morgun, að sögn Garðars Garðarssonar hæstaréttarlögmanns, sem var í gær skipaður formaður gerðardóms. Kemur þetta fram í Morgunblaðinu .

Auk hans taka þau Ásta Dís Óladóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar, og Stefán Svavarsson endurskoðandi sæti í dómnum. Hæstiréttur tilnefndi þau þrjú í gærmorgun og gekk atvinnuvegaráðuneytið í kjölfarið frá skipun dómsins.

Hlutverk gerðardóms er að ákveða kaup og kjör félagsmanna BHM, m.a. Dýralæknafélags Íslands, Félags geislafræðinga og Ljósmæðrafélags Íslands, en kveðið var á um skipun dómsins í lögum sem sett voru á verkfall BHM hinn 13. júní sl.

Spurður hvort stefna BHM á hendur íslenska ríkinu vegna lagasetningar á verkfallið muni hafa áhrif á störf gerðardóms segir Garðar svo ekki vera á meðan lögunum eða tilnefningunum hafi ekki verið hnekkt.