Verið er að ganga frá sölu á fyrirtækinu Invent Farma þessa dagana, en fyrirtækið rekur lyfjaverksmiðjur á Spáni. Friðrik Steinn Kristjánsson, sem leiddi kaupin á fyrirtækinu fyrir átta árum, er lyfjafræðingur. Hann stofnaði lyfjafyrirtækið Omega Farma sem árið 2002 sameinaðist fyrirtækinu Delta. Eftir sameiningu Delta og Pharmaco varð síðan til Actavis.

Friðrik á 31,9% hlut í Invent Farma. Næststærsti hluthafinn er Jón Árni Ágústsson sem á 13,3% hlut, Frosti Bergsson á svo 9% eins og Ingi Guðjónsson, fyrrverandi forstjóri Lyfju. Aðrir hluthafar eru fjárfestirinn Daníel Helgason og arkitektinn Ingimundur Sveinsson. Erlendir hluthafar eru aðallega stjórnendur lyfjafyrirtæksins á Spáni, með í kringum 10% hlut. Flestir hluthafa, utan Friðrik Steins, munu selja hluti sína að stærstum hluta.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa verið deilur milli Friðrik Steins og flestra annarra hlutahafa. Að sögn heimildarmanna hefur Friðrik verið erfiður í samskiptum. Hefur það meðal annars haft áhrif á þá niðurstöðu að flestir hluthafar selja nú, en Friðrik ekki.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .