Á borgarstjórnarfundi í gær var samþykkt að Sóley Tómasdóttir, oddviti Vinstri grænna í borgarstjórn, skyldi taka sæti  Lífar Magneudóttur í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar.

Líf og Sóley eru flokkssystur og þessi ákvörðun Sóleyjar um að taka sjálf við formennsku kom Líf að óvörum. Vísir.is greindi frá þessum áætlunum Sóleyjar í gær áður en þær voru svo staðfestar með kosningu á borgarstjórnarfundi.

Skiptar skoðanir eru innan borgarstjórnarflokksins sem og flokksins í heild um ákvörðun Sóleyjar, og skiptast Vinstri grænir í fylkingar með eða á móti borgarfultrúanna.

Líf hafði gegnt formennsku í mannréttindaráðinu frá júní 2014. Þá tók Sóley við hlutverki forseta borgarstjórnar. Nú tekur Sóley hins vegar einnig formannssætið í mannréttindaráði.

Sex borgarfulltrúar sátu hjá við kosninguna til ráðsins - Kjartan Magnússon og Júlíus Vífill Ingvarsson frá Sjálfstæðisflokknum, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir og Jóna Björg Sætran frá Framsókn og flugvallarvinum, Halldór Auðar Svansson Pírati og Elsa Yeoman frá Bjartri framtíð.