Hæstiréttur hefur fallist á beiðni Birkis Leóssonar, fyrrverandi meðeiganda Deloitte, um að taka mál hans gegn félaginu fyrir í Hæstarétti. Er það gert á grunni þess að dómur í málinu kynni að vera fordæmisgefandi fyrir nokkur grundvallaratriði í félagarétti auk þess að dómur Landsréttar hafi verið bersýnilega rangur að hluta til.

Upphaf ágreinings í eigendahópi Deloitte má rekja til þess að árið 2017 ákvað Deloitte á Íslandi að sækja um aðild að alþjóðlegu félagi Deloitte fyrir Norðvestur-Evrópu. Sumir eldri eigenda, ef svo má að orði komast, upplifðu að þeir hefðu til að byrja með verið settir í aftursætið og síðar málaðir út í horn. Að endingu sáu þeir sæng sína upp reidda og ákváðu að róa á önnur mið, ýmist sjálfviljugir eða ekki. Í kjölfarið hefur risið ágreiningur um það hvort staðið hafi verið að starfslokum með réttum hætti.

Meðal þeirra sem töldu sig hlunnfarna var Birkir Leósson, en í maí 2017 neitaði hann að undirrita hluthafasamkomulag í tengslum við inngönguna í regnhlífarsamtökin. Í kjölfar þess var honum tjáð af þáverandi forstjóra, Sigurði Páli Haukssyni, og stjórnarformanni að hann gæti ekki starfað lengur sem A-félagsmaður. Þess í stað gæti hann starfað áfram sem Bfélagi, án eignaraðildar eða látið af störfum.

Varð það úr að Birkir hætti störfum en spratt þá upp deila um hvort rétt hefði verið staðið að innlausn á hlut hans. Byggði Birkir meðal annars á því að við innlausn hefði átt að fara að lögum um sameignarfélög en ekki eldra hluthafasamkomulagi, þar sem það hefði fallið úr gildi við undirritun hins síðara. Hljóðaði dómkrafa hans alls upp á 135 milljónir króna auk viðurkenningar á rétti í hagnaðarhlutdeild 1. júní 2017 til 1. janúar 2018. Hvorki héraðsdómur né Landsréttur féllust á þær kröfur og töldu þeir að ákvæði eldra samkomulags trompaði ákvæði laganna.

Í beiðni Birkis var meðal annars byggt á því að ekki hefði áður reynt á samspil ákvæða laga um sameignarfélög – eigandi Deloitte ehf. er sameigarnarfélagið D&T sf. – um réttar stöðu félagsmanna við útgöngu úr félagi og samninga félagsmanna um frávik frá hinum almennu reglum sem lögin kveða á um. Dómur í málinu kynni því að hafa fordæmisgefandi áhrif um stöðu félagsmanns sem samþykkir ekki breytingar á félagasamningi og gengur úr því í kjölfarið.

Deloitte lagðist gegn beiðninni og sagði að þetta væri alls ekki í fyrsta sinn sem reyndi á áhrif samninga á lagaákvæði sem víkja má með samningi hlutaðeigandi. Hæstiréttur taldi hins vegar að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi en að auki væri „ástæða til að ætla að dómur Landsréttar væri bersýnilega rangur um ákvörðun málskostnaðar“. Beiðnin fékkst því samþykkt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .