Frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um róttækar breytingar á fyrirkomulagi úthlutunar tollkvóta á innfluttar landbúnaðarvörur, sem ætlað er að færa neytendum lægra smásöluverð, fékk gagnýni á sig úr óvæntri átt að mati Samtaka verslunar og þjónustu.

Það er frá Félagi atvinnurekenda, Neytendasamtakanna sem og Samtaka iðnaðarins, en bæði samtökin, það er SVÞ og SI, eru með skrifstofur sínar í Húsi Atvinnulífsins í Borgartúninu. Ábati neytenda gæti numið hundruðum milljóna króna á ári að mati SVÞ.

Samtök verslunar og þjónustu segja sterkar líkur á að breytingarnar sem ráðherra hafi mótað í frumvarpinu muni lækka verð á innfluttum landbúnaðarafurðum, neytendum til hagsbóta, en atvinnuveganefnd Alþingis hefur fjallað um frumvarpið að undanförnu.

Segja samtökin frumvarpið virðast vandað og hagsmunaaðilar hafi fengið að koma sjónarmiðum á framfæri á undirbúningsstigum, en síðan hafi sá fáheyrði atburður átt sér stað að ellefu félög hagsmunaaðila hafi ályktað gegn frumvarpinu, degi fyrir áætlaðan afgreiðsludag nefndarinnar.

Fyrir utan aðila sem SVÞ telur greinilega ekki koma á óvart að séu andstæð frumvarpinu, eins og Bændasamtök Íslands og ýmis aðildarfélög þeirra, hafi stuðningurinn frá FA, SI og Neytendasamtökunum verið óvæntur.

„Það kemur vægast sagt mjög á óvart að samtök á borð við Félag atvinnurekenda, Samtök iðnaðarins og Neytendasamtökin sameinist um að leggja stein í götu lagafrumvarps sem hafði það að raunverulega markmið að færa íslenskum neytendum ábata sem numið getur fleiri hundruðum milljóna króna á ári,“ segir í yfirlýsingu SVÞ, en samtökin segja rökin sem sett eru gegn frumvarpinu í ályktun hagsmunasamtakanna afar óljós.

„[Þ.e.] að finna þyrfti málinu heppilegri farveg, m.a. til að bregðast við mögulegum frávikum sem alltaf kunna að koma upp í búvöruframleiðslu, sem háð er veðurfari og öðrum ytri aðstæðum .“

Skora Samtök verslunar og þjónustu að lokum á atvinnuveganefnd Alþingis að afgreiða frumvarpið til 2. umræðu svo það fái eðlilega þinglegan framgang.

„Því verður ekki trúað að óreyndu að Alþingi láti mótsagnakennd rök þröngs sérhagsmunahóps, sem hefur hlotið stuðning úr óvæntri átt, stöðva framgang lagafrumvarps sem hefur það raunhæfa markmið að færa íslenskum neytendum ábata sem lengi hefur verið kallað eftir.“