Scott Thompson var í janúar ráðinn nýr framkvæmdastjóri tölvufyrirtækisins Yahoo. Thompson var áður forstjóri rafræna greiðslufyrirtækisins Paypal.

Við eftirgrenslan fjárfestingafyrirtækisins Third Point kom í ljós að Thompson hefur ekki háskólapróf í tölvunarfræði líkt og fram kom á starfsumsókn hans. Third Point er hluthafi í Yahoo og gaf stjórnendum fyrirtækisins frest til síðastliðins mánudags til að segja Thompson upp störfum. Það hefur hins vegar enn ekki verið gert og segir á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að hluthafar séu farnir að ókyrrast vegna málsins.

Thompson sendi afsökunarbeiðni á starfsólk Yahoo nú á mánudag vegna málsins en tók þó ekki fram hvers vegna hann gaf upp rangar upplýsingar á atvinnuumsókninni. Stjórn Yahoo hefur gefið út að farið verði yfir ráðningarferlið og málið rannsakað nánar. Third Point hafa hins vegar krafist þess að öll gögn varðandi ráðninguna verði gerð hluthöfum opinber og segja öllum best að stjórn Yahoo viðurkenni mistök sín.