Deilur hafa valdið töfum á endurbyggingu Tvíburaturnanna svokölluðu (World Trade Center) í New York og nú liggur ljóst fyrir að ekki verður búið að reisa nýja byggingu fyrr en um miðjan næsta áratug að sögn Reuters fréttastofunnar.

Til stendur að reisa einn turn þar sem hinir tveir stóðu áður og hefur hann þegar hlotið nafnið Frelsisturninn eða Freedom Tower.

Deilur um lóðina hafa nú hins vegar gert það að verkum að verkið hefur bæði tafist og eins er kostnaðaráætlun nú þegar komin um 3 milljarða Bandaríkjadali fram úr áætlun en upprunaleg áætlun gerði ráð fyrir að um 15 milljörðum dala yrði varið til verksins.

Deilurnar standa á milli hafnaryfirvalda í New York og New Jersey, sem hafa yfirráð yfir lóðinni og vilja gera neðanjarðarlestastöð undir turninum sem stendur til að reisa.

Aðrir vilja búa til minningarsafn um þá sem létust í turnunum tveimur eftir hryðjuverkaárásirnar þann 11. september árið 2001 og hefur þeim hópum sem styðja þá hugmynd vaxið ásmegin undanfarnar vikur að sögn Reuters. Að baki hugmyndinni standa ýmiss félagasamtök, aðilar úr viðskiptalífinu , samtök lögreglumanna, samtök slökkviliðsmanna og nú síðast nokkrir þingmenn á þingi New York fylkis.

Samkvæmt áætlun hafnarfyrirvalda í New York borg stóð til að turninn stæði ofan á lestarstöðinni en deilurnar um svæðið fyrir neðan turninn hefur gert það að verkum að verkið tefst enn frekar.

Þá kemur fram í frétt Reuters að hvorki hafnaryfirvöld né þau samtök sem standa að bakvið safninu hafa skilað inn fullkláruðum áætlunum né teikningum samkvæmt skýrslu sem fylkisstjórinn í New York gaf út nýlega.