Þótt um fjögur ár séu liðin frá því að upp úr sauð í eigendahópi Deloitte hafa ekki öll mál verið til lykta leidd. Fjórir fyrrverandi eigendur félagsins stefndu því í kjölfar starfsloka sinna en hingað til hefur ráðgjafarfyrirtækið haft betur að stærstum hluta.

Sagt var frá því í upphafi árs 2018 að illdeilur hefðu staðið yfir meðal eigenda félagsins sem hefðu lokið með því að sumir þeirra létu af störfum. Deloitte ehf. er að nær öllu leyti í eigu D&T sf. en eigendum þess hefur fækkað undanfarin ár. Í skýrslu stjórnar reikningsárið 2014-15 er þess til að mynda getið að eigendur hafi verið 34 endurskoðendur auk fjögurra til viðbótar sem ýmist voru lögfræðingar eða sérfræðingar í fjármálum.

Þremur áður síðar voru 25 endurskoðendur eigendur D&T sf. auk þriggja hagfræðinga, tveggja lögmanna og hagfræðings. Undanfarin tvö ár er fjölda eigenda ekki getið í skýrslu stjórnar Deloitte ehf. Umræddir eigendur skiptast í Aog B-félaga en hinir fyrrnefndu eiga stærri hlut í félaginu og hafa atkvæðisrétt á félagsfundum. Slíkt hafa B-félagar ekki.

Bann við „Big 4“

Í máli Ágústs Heimis Ólafssonar hafði hvor aðili fyrir sig hafði sína sögu að segja um ástæðu uppsagnarinnar. Af hálfu félagsins var staðhæft að það hefði verið þar sem hann hefði gerst brotlegur gagnvart innanhússreglum auk siðareglum endurskoðenda. Ágúst Heimir taldi á móti að það hefði aðeins verið átylla til að losna við hann. Í hans tilfelli var honum sagt upp störfum með mánaðar fyrirvara í stað þeirra sex sem samið var um í ráðningarsamningi.

Í Landsrétti í fyrra var komist að þeirri niðurstöðu að ástæða uppsagnarinnar hefði verið lögmæt. Aftur á móti var talið að skerðing á uppsagnarfresti, úr sex mánuðum í einn, hefði verið úr hófi og var Deloitte dæmt til að greiða honum tveggja mánaða laun. Líkt og í máli Birkis var því hafnað að ranglega hefði verið staðið að innlausn á hlut Ágústs. Ágúst krafðist þess einnig í máli sínu að tiltekið ákvæði ráðningarsamnings hans yrði dæmt ógilt og óskuldbindandi. Var þar á ferð klásúla þess efnis að hann myndi ekki ráða sig til starfa hjá samkeppnisaðila í þrjú ár frá uppsögn en honum hafði verið sagt upp störfum í febrúar 2017. Landsréttur féllst á að ákvæðið hefði gengið lengra en nauðsyn krafði, en þar sem dómur var kveðinn upp eftir að bannið féll úr gildi var talið að hann hefði ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn um kröfuna.

Í kjölfar þess höfðaði Ágúst annað mál gegn Deloitte og krafðist 61,5 milljóna króna til heimtu á bótum sem hann taldi sig eiga rétt á vegna téðs ákvæðis. Dómur féll í Héraðsdómi Reykjaness um miðjan mánuðinn. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að Ágúst, sem einn eigenda Deloitte og lykilstarfsmaður, hefði gengist sjálfviljugur undir skilmálann og að hann hefði verið honum, þá sem eiganda félagsins, til hagsbóta. Þá hefði ákvæðinu ekki verið beitt samkvæmt orðanna hljóðan heldur það aðeins látið ná til svonefndra „Big 4“, það er KPMG, PWC, EY og Grant Thornton. Var Ágúst látinn bera hallann af því að hafa ekki látið reyna á gildi ákvæðisins. Ekki liggur fyrir hvort dóminum verður áfrýjað.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .