*

þriðjudagur, 21. september 2021
Innlent 6. maí 2019 15:51

Deilurnar um Herjólf magnast enn

Vegagerðin innkallar bankaábyrgðir vegna smíði nýs Herjólfs sem skipasmíðastöðin vill fá 1,2 milljarða viðbótargreiðslu fyrir.

Ritstjórn
Núverandi Herjólfur.
Haraldur Guðjónsson

Vegagerðin afturkallar ekki innköllun bankaábyrgða vegna smíði nýs Herjólfs hjá pólsku skipasmíðastöðinni Crist S.A., en ítrekar samt að stofnunin vilji leita allra leiða til að ná samningum við skipasmíðastöðina um að klára málið.

Snúast deilur Vegagerðarinnar og skipasmíðastöðvarinnar um hver beri ábyrgð á viðbótarkostnaði vegna smíðinnar sem stöðin bætti við á lokametrum framkvæmdanna.

Nemur viðbótarkostnaðurinn þriðjungi af upphaflegu samningsverði, eða sem nemur tæplega 9 milljónum evra, sem samsvarar 1,2 milljarði íslenskra króna. Skipasmíðastöðin segir Vegagerðina bera ábyrgð á kostnaðinum vegna breytinga á hönnun skipsins.

Vegagerðin segir hins vegar að samið hafi verið um hvert skref í breytingunum, auk verktafa, og því komi viðbótarkrafa á síðustu metrunum mjög á óvart.

Segir Vegagerðin í tilkynningu á vef sínum, að bankaábyrgðin sé trygging Vegagerðarinnar fyrir því að endurheimta að mestu það fé sem stofnunin hafi þegar greitt Skipasmíðastöðinni, standi hún ekki við gerða samninga.

Hins vegar hafi ítrekað legið við að ábyrgðirnar sem skipasmíðastöðinni sé skylt að viðhalda renni út, og því hafi nýlega komið upp sú staða að Vegagerðin hafi ekki átt annan kost en að innkalla ábyrgðir hjá bankanum sem gefið hefur út ábyrgðir fyrir skipasmíðastöðina, til að tryggja hagsmuni sína.

Það hafi verið gert því við lá að ábyrgðin félli úr gildi áður en viðeigandi skjöl til staðfestingar framlengingu ábyrgðanna bærust Vegagerðinni. Tekur stofnunin þó fram að innköllunin feli ekki í sér riftun samnings en ef skipasmíðastöðin myndi áforma að selja ferjuna öðrum aðila fæli það hins vegar í sér samningsrofi með tilheyrandi tjóni fyrir alla aðila.